Fjör í útgáfu vegabréfa URKÍ-H

24. feb. 2006

Þau Anna María og Bjarni skemmtu sér vel í myndatöku fyrir vegabréf URKÍ-H
Í gærkvöldi var mikið fjör í Sjálfboðamiðstöðinni á Strandgötu er félagar í URKÍ-H undirbjuggu vegabréfaverkefni sem verður á dagskrá á næstunni. Allir sem mættir voru bjuggu sér til vegabréf með myndum og tilheyrandi. Vegabréfin á svo að nota þegar haldin verða sérstök þemakvöld tileinkuð ákveðnu landi.

Á þemakvöldi munu góðir gestir líta við og kynna krökkunum menningu og lífi í ákveðnu landi auk þess sem starf Rauða krossins og Rauða hálfmánans í hverju landi verður kynnt. Á hverju þemakvöldi eða vegabréfafundi fá viðstaddir fána landsins sem kynnt er í vegabréfið sitt.

Fyrsti vegabréfafundur URKÍ-H verður haldinn fimmtudaginn 9. mars og er það Sólveig Ólafsdóttir upplýsingafulltrúi Rauða kross Íslands sem ríður á vaðið. Sólveig ætlar að bjóða URKÍ-H félögum í spennandi ferðalag til Afríku, nánar tiltekið til Simbabwe þar sem hún var búsett um nokkura ára skeið.

Ungmennastarfið í Hafnarfirði er opið öllum 12 ára og eldri en það fer fram í Sjálfboðamiðstöðinni Strandgötu 24 alla fimmtudaga kl. 17:30-19:00