Rauði krossinn vinnur að velferð kvenna víða um heim

8. mar. 2006

Alþjóðlegur dagur kvenna 8. mars

Í fjölmörgum löndum heims búa konur við hvað kröppustu kjörin í þjóðfélaginu. Stríðsátök, sjúkdómar, hamfarir, fátækt og ofbeldi koma oft hvað harðast niður á þeim sem ekkert eiga undir í samfélaginu. Alþjóða Rauði krossinn hefur það að markmiði að aðstoða þá sem minnst mega sín og gerir því ýmislegt til að meta og mæta þörfum kvenna sem eiga undir högg að sækja.

Í Kongó aðstoðar Alþjóða Rauði krossinn fórnarlömb kynferðisofbeldis, í Pakistan er boðið upp á sérstaka umönnun fyrir mæður og börn á skjálftasvæðunum og í Yemen eru haldin námskeið fyrir kvenfanga til að auðvelda þeim að fóta sig í lífinu eftir að konurnar losna úr fangelsi. Þetta eru aðeins fá af þeim verkefnum sem sniðin eru að konum í þeim tilgangi að efla þær til dáða og bæta lífskjör þeirra og barna þeirra.

Jakob Kellenberger forseti Alþjóðaráðs Rauða krossins hefur í tilefni af alþjóðlegum degi kvenna í dag 8. mars lýst yfir ánægju sinni með að áætlanir ráðsins og starf þess á vettvangi hafa aukið vitund fólks um þessi mál. „Það á að vera sjálfsagður og órjúfanlegur hluti af starfi okkar að meta og mæta þessum sérstöku þörfum.”

Réttar aðgerðir krefjast meiri skilnings á því hvað kemur fyrir konur þegar þær lenda í stríðsátökum og hvaða vandamál þær standa frammi fyrir. Þess vegna þarf að hugsa sérstaklega að þörfum kvenna. Það er yfirleitt mikilvægt að konur tali við og vinni með konum sem eru lágt settar í samfélagi sínu og taka ekki þátt í samfélagsathöfnum. Það er engin leið betri til að skilja aðstöðu þeirra, bregðast á viðeigandi hátt við þörfum þeirra og bæta aðstöðu þeirra að öðru leyti.

Í fjallahéruðum Norður-Pakistans eru karlmenn við stjórnvölinn og konur eiga oft erfitt með að koma þörfum sínum á framfæri. Í jarðskjálftanum mikla 8. október – fyrir nákvæmlega fimm mánuðum – urðu konur og börn hvað verst úti. Alþjóða Rauði krossinn gerði sér því sérstakt far um að ná til kvenna með því að senda kvensjálfboðaliða sem könnuðu þarfir þeirra og barnanna.

Til þess að mæta þörfum þeirra voru útbúnir sérstakir hreinlætispakkar fyrir konur, sem auk nauðsynlegra hreinlætisvara innihéldu spegla, greiður og annað sem konum er nauðsynlegt þó svo að þær dvelji í tjaldi við vosbúð og kulda. Þá var 200 tjöldum sem voru stærri en venjuleg fjölskyldutjöld úthlutað til heilsugæsluliða sem jafnan sinna heilbrigðis- og hreinlætisfræðslu kvenna svo að þær gætu haldið þeirri starfsemi áfram þótt þær hefðu misst heimili sín og aðstöðu í skjálftunum.

Rauði kross Íslands sinnir verkefnum sérstaklega fyrir konur. Til að mynda rekur Reykjavíkurdeildin í samstarfi við félagsþjónustu Reykjavíkurborgar athvarf fyrir heimilislausar konur, Konukot. Athvarfið er ætlað konum sem eiga hvergi höfði sínu að halla, eru í neyslu og þurfa stað til að sofa á. Sjálfboðaliðar eru í verkefnum í Kvennaathvarfinu til þess að létta á mæðrum og veita börnunum félagslegan stuðning. Einnig er Rauði krossinn með í árlegu 16  daga átaki „Gegn kynbundnu ofbeldi.” Þar er verið að minna á að hér á landi og um allan heim er nauðsynlegt að vera sérstaklega á varðbergi gegn því refsileysi sem vill oft fylgja ofbeldisglæpum gegn konum