Hagkaup gefur föt

17. mar. 2006

Gunnar Ingi Sigurðsson framkvæmdastjóri Hagkaupa og Örn Ragnarsson starfsmaður Fataflokkunarstöðvar Rauða krossins.

Hagkaup færði Rauða krossi Íslands 10 bretti af ónotuðum fatnaði að gjöf nýverið. Um er að ræða fatnað og skó, bæði á börn og fullorðna. Fatnaðurinn verður sendur til Malaví og Gambíu á næstu dögum.„Gjöfin kemur í mjög góðar þarfir enda er fátækt mikil á þeim svæðum sem fötin eru send til. Margir eiga um sárt að binda vegna alnæmis og þurfa á aðstoð að halda. Svo er svalt haustið framundan í Malaví,” segir Örn Ragnarsson, verkefnisstjóri fataflokkunar, sem tók við gjöfinni fyrir hönd Rauða kross Íslands.

Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa, afhenti Rauða krossinum gjöfina. Fötin verða flokkuð í Fataflokkunarstöð Rauða kross deilda á höfuðborgarsvæðinu sem staðsett er í Hafnarfirði.

Í Fataflokkunarstöðinni er tekið á móti öllum þeim fatnaði sem til fellur á höfuðborgarsvæðinu. Fötin eru notuð í hjálparstarf innanlands, seld í Rauða krossbúðunum, send til annarra landsfélaga Rauða krossins eða seld óflokkuð til flokkunarfyrirtækja í Evrópu. Allur ágóði verkefnisins rennur í Hjálparsjóð Rauða krossins.