Skemmtileg heimsókn úr Grafarvogi

21. mar. 2006

Hér má sjá hluta nemenda Foldaskóla sem heimsóttu Hafnarfjörðinn.
Um 80 hressir krakkar úr Foldaskóla í Grafarvogi heimsóttu Rauða krossinn í Hafnarfirði í síðustu viku. Voru þar á ferðinni 8. bekkingar sem voru að kynna sér starf Rauða krossins. Ferðin var liður í þemadögum sem nú standa yfir í skólanum.

Hver bekkur fékk þrjár kynningar um starfsemi Rauða krossins. Í Fataflokkunarstöðinni tók Örn Ragnarsson verkefnisstjóri á móti krökkunum og kynnti þeim það starf sem þar fer fram s.s. fataflokkun, fatasendingar til útlanda og fataúthlutun. Í Sjálfboðamiðstöð Rauða krossins á Strandgötu tók Jón Brynjar Birgisson svæðisfulltrúi á móti krökkunum og kynnti þeim fjölbreytt starf og markmið Rauða kross hreyfingarinnar. Ragnar Magnússon, einn af kennurum krakkanna, kynnti þeim svo sjálfboðaliðastarf sem hann vann á vegum Rauða kross Íslands í Gambíu.

Eftir fræðsluna slógu krakkarnir og kennarar þeirra upp pitsuveislu í sal sjálfboðamiðstöðvarinnar áður en þau héldu heim.

Grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu stendur til boða að fá heimsókn frá Rauða krossinum fyrir alla 8. bekki. Langflestir skólar hafa tekið fræðslunni fagnandi. Deildir á höfuðborgarsvæðinu standa að þessu verkefni og hafa gert síðustu þrjú árin. Nánari upplýsingar veitir Jón Brynjar Birgisson í síma 565 2425 eða í tölvupóst jon@redcross.is.