Unglingar berjast gegn fodómum og mismunun

28. mar. 2006

Félagar í URKÍ-H máluðu myndir undir yfirskriftinni ,,Byggjum betra samfélag".
Síðastliðinn fimmtudag tóku félagar í ungmennahreyfingu Rauða krossins í Hafnarfirði (URKÍ-H) sig til og hófu formlega þátttöku í átakinu ,,Byggjum betra samfélag". Krakkarnir skoðuðu hvað það er sem leiðir til fordóma og mismununar í íslensku samfélagi og hvað ungt fólk getur gert til að stuðla að betra samfélagi.

Krakkarnir túlkuðu viðfangsefnið á blaði og voru búnar til margar fallegar og áhugaverðar myndir. Allir þátttakendur voru sammála um að vinátta og skilningur milli ólíkra þjóðfélagshópa væri vænlegastur til að móta jákvætt samfélag. Þema myndanna fjallaði í flestum tilvikum um vináttu fólks af ólíku þjóðerni. Í apríl munu krakkarnir bjóða foreldrum sínum á litla sýningu á myndunum.

Eitt af verkefnum ungmennahreyfingarinnar á næstu misserum er þátttaka í átakinu ,,Byggjum betra samfélag" og munu þau m.a. taka þátt í hátíðarhöldum Bjartra daga í Hafnarfirði í byrjun júní. Átakið hófst í ágúst 2005 og er ætlað að vinna gegn fordómum og mismunun í íslensku samfélagi. Það er hluti af málsvarastarfi Rauða krossins og hefur það að markmiði að gera gott samfélag betra, á sama tíma og margvíslegar þjóðfélagsbreytingar eiga sér stað meðal annars með auknum fjölda innflytjenda.