Líf og fjör á Björtum dögum

6. jún. 2006

Krakkarnir í móttökudeild Lækjarskóla og Ungmennahreyfingu Rauða krossins í Hafnarfirði unnu saman að fræðslu um fordóma og mismunun.
Félagar í Ungmennahreyfingu Rauða krossins í Hafnarfirði, URKÍ-H, tóku á laugardaginn þátt í lista- og menningarhátíðinni Björtum dögum sem stendur yfir í Hafnarfjarðafirði þessa dagana.

Að deginum var opið hús í móttökudeild Lækjarskóla þar sem nemendur deildarinnar og félagar í URKÍ-H buðu uppá fjölbreytt skemmtiatriði. Krakkarnir sem fram komu voru á aldrinum 7-16 ára og unnu skemmtiatriðin sjálf. Meðal atriða voru dans, söngur og ljóðalestur. Í lokin sungu krakkarnir Meistara Jakob á móðurmáli sínu sem endaði í fjöldasöng á íslensku.

Um kvöldið var haldin söngvakeppni hinna mörgu tungumála, Cantare, í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Eldri hópur URKÍ-H félaga sá um sölu á geisladisknum Úr vísnabók heimsins. Ágóði sölunnar rennur allur til verkefna Rauða kross Íslands með börnum í Sunnanverðri Afríku. Til fróðleiks fyrir kaupendur voru krakkarnir með myndasýningu í andyri leikhússins þar sem sjá mátti myndir frá barnaheimilum í Malaví og sjálfboðaliðum Rauða krossins þar í landi að störfum. Félagar URKÍ-H hyggjast halda sölu á geisladisknum áfram á næstunni til að leggja þessu verkefni lið.

Þátttaka URKÍ-H í Björtum dögum er undir kjörorðunum Byggjum betra samfélag en krakkarnir hafa í vetur unnið með hugtök tengd vitundarvakningu Rauða krossins gegn fordómum og mismunun. Með vinnu sinni í vetur og þátttöku í Björtum dögum vilja þau vekja athygli á því hvað ungt fólk getur gert til að stuðla að samfélagi án mismununar.