Hrefna og Signý í alþjóðlegum vinabúðum í Austurríki

1. okt. 2012

Þær Hrefna Björk Aronsdóttir og Signý Björg Valgarðsdóttir lögðu land undir fót í sumar og tóku þátt í alþjóðlegum vinabúðum í Langenlois á vegum austurríska Rauða krossins.  Þangað mættu um 50 ungmenni frá 17 löndum víðsvegar úr heiminum til að fræðast um fjölmenningu, fordóma, mannréttindi og mikilvægi friðar heima og heiman.

Það var þó ekki þannig að stelpurnar fengju að njóta þeirra sjálfsögðu mannréttinda að sofa út á hverjum morgni í friði og spekt, heldur glumdi vekjaraklukkan stundvíslega kl. 7 alla morgna og tóku krakkarnir þátt í skipulagðri dagskrá langt fram á kvöld.  Fyrir svefninn fengu þó allir að heyra kvöldsögu og 1 stykki nammi, en sennilega hafa austurrískir tannlæknar ekki komið nálægt skipulagningu þessara vinabúða.

Þær Signý og Hrefna ferðuðust víða um Austurríki, tóku m.a. þátt í gjörningi í Vín til að undirstika að ALLIR hafi áhrif og má sjá myndband af því á YouTube.  Þær tóku einnig þátt í friðargöngu, fræddust um Rauða krossinn og Genfar samningana og hlutverk þeirra í stríði og heimsóttu útrýmingarbúðir nazista í Mauthausen.  Þær hittu 99 ára gamlan mann sem lifði af dvöl í þessum búðum og var frásögn hans bæði fróðleg og hræðileg.

Stelpurnar héldu kynningu fyrir hópinn um Ísland og Rauða krossinn á Íslandi, sýndu myndbönd, bökuðu pönnukökur og buðu upp á harðfisk með smjöri.  Leikir voru mikið notaðir í kennslunni m.a. til að skilja hve erfitt það er að koma inn í nýtt samfélag þar sem maður skilur ekki þau gildi eða reglur sem þar ríkja.

Hrefna og Signý eru nú að skipuleggja vetrarstarf Mórals (13-16 ára ungmannahópur Rauða krossins sem hittist alla mánudaga kl. 19:30 í Þverholti 7) og styðjast eflaust við heilmikið af því sem þær lærðu í Austurríki.