Nemendur í Réttó styrkja Rauða krossinn

8. nóv. 2012

Nemendur í Réttarholtsskóla hafa staðið í ströngu við að búa til óskastjörnur sem seldar eru til styrktar mannúðarstarfi Rauða krossins. Þetta er í annað sinn sem nemendurnir taka höndum saman og efna til fjáröflunar fyrir félagið.

Mikið er lagt í verkefnið því nemendur hafa búið til „óskastjörnur" úr verðlausum pappír og pakkað þeim í litlar öskjur sem þeir bjuggu líka til. Öskjurnar eru svo seldar í skólahverfinu. Í fyrra nam ágóðinn af sölu óskastjarnanna um 400 þúsund krónum, og var styrkurinn færður Vin, athvarfi Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir.

Nú er leikurinn endurtekinn. Hver askja er seld á 500 krónur, og ef sérhverjum nemanda skólans tekst að selja fjórar öskjur gæti styrkurinn numið um 600 þúsund krónum, og það munar um minna.

Að þessu sinni hefur verið ákveðið að styðja „Frú Ragnheiði" en það er verkefni á vegum Rauða krossins í Reykjavík  sem lýtur að hjálp við heimilislaust fólk sem margt hvert glímir við fíkniefnavanda á háu stigi. Í tengslum við fjáröflunina fá nemendur fræðslu um starfsemi Rauða krossins og aðstæður skjólstæðinga „Frú Ragnheiðar".

Með þessu framtaki vilja starfsmenn og nemendur Réttarholtsskóla sýna í verki vilja sinn til að láta gott af sér leiða og hvetja til samábyrgðar gagnvart mikilvægum samfélagsverkefnum í þágu þeirra sem höllum fæti standa.

Verkefnið hófst í gær þann 7. nóvember, sem er afmælisdagur skólans, með heimsókn fulltrúa Rauða krossins. Þá hófst vinnan við stjörnugerðina, og svo tók sala þeirra við. Í kvöld er svo skólaball og hefur stjórn nemendafélagsins ákveðið að allur ágóði af því muni renna óskiptur í söfnunina.