Á flótta kynntur fyrir landsfélögum í Evrópu

6. okt. 2011

Þrjátíu og átta manna hópur frá landsfélögum Rauða krossins víðsvegar að úr Evrópu er nú staddur á Íslandi til að taka þátt í hlutverkaleiknum Á flótta og viku námskeiði í kjölfarið. Leikurinn fer fram laugardaginn 24. september í gömlu herstöðinni í Keflavík. Deild Rauða krossins í Reykjavík rekur verkefnið sem unglingar á Íslandi hafa tekið þátt í undanfarin ár. Verkefnið hefur verið kynnt innan Rauðakrosshreyfingarinnar og hlotið mikla eftirtekt.

Tilgangurinn með leiknum og námskeiðinu er að gefa þátttakendum kleift að setja hlutverkaleikinn upp í eigin heimalandi. Um er að ræða sjálfboðaliða og starfsmenn Rauða kross félaganna í Þýskalandi, Írlandi, Ítalíu og Belgíu. Námskeiðið hlaut styrk frá Evrópu unga fólksins.

Hlutverkaleikurinn gerir ungu fólki kleift að setja sig í spor milljóna manna út um allan heim sem teljast til flóttamanna og hælisleitenda.

Meðan á leiknum stendur upplifa þátttakendur það óöryggi, vantraust, hræðslu, þreytu og annað sem fylgir því að vera á flótta. Þátttakendurnir eru settir í þá aðstöðu að þeir séu óvelkomnir, þolendur skrifræðis og fordóma, háðir neyðaraðstoð auk þess sem þeir verða að gera sig skiljanlega á framandi tungumálum og vera komnir upp á náð og miskunn fólks sem ber enga virðingu fyrir þeim.

Með þessari kennslutækni ná þátttakendur að læra ýmislegt um stöðu flóttamanna sem líklegt er að þeir tileinki sér frekar en ef þeir hefðu lært það með hefðbundnari kennsluaðferðum. Markmiðið er að draga úr fordómum þátttakenda með því að þeir öðlist skilning á stöðu flóttamanna og hælisleitenda og átti sig á því af hverju sumir þeirra eru staddir á Íslandi en ekki í upprunalandi sínu.

Að leik loknum hafa þátttakendur að öllum líkindum öðlast nýja sýn á heim flóttamanna sem mun hjálpa þeim að skilja og hafa samúð með þeim og jafnvel hvetja einhverja til að bjóða sig fram til aðstoðar sem sjálfboðaliðar Rauða krossins. Með verkefninu, Á flótta, vinnur Rauði krossinn að því draga úr fordómum í samfélaginu og auka skilning og umburðarlindi gagnvart náunganum.