Alþjóðlegur dagur æskunnar 12. ágúst

11. ágú. 2006

„Ungt fólk sem býður sig fram til starfa fyrir Rauða krossinn gefur tíma sinn og starfsgetu til nauðsynlegra verkefna sem það sér í sínu umhverfi. Þannig elst það upp við að leggja sitt af mörkum til að byggja upp betra samfélag,” segir Juan Manuel Suárez del Toro forseti Alþjóða Rauða krossins, í yfirlýsingu í tilefni af alþjóðlegum degi æskunnar, 12. ágúst.

Hann bendir á að í mannúðarreglum félagsins segir að það standi fyrir gagnkvæman skilning, vináttu, samvinnu og varanlega frið meðal allra. Sífellt meiri þörf sé á þessum gildum í heiminum í dag og því sé nauðsynlegt að fjárfesta í framtíðinni.

„Unga fólkið í Rauða krossinum er framtíðin en það vill umfram allt vera nútíðin. Það er undir hinum fullorðnu leiðtogum komið að hlusta og tryggja að ný kynslóð kynnist mannúðargildum okkar. Þetta er aðeins hægt með uppbyggilegu og góðu sambandi milli kynslóða sem byggist á gagnkvæmri virðingu, viðurkenningu á styrk og veikleika hvors annars og umfram allt því sameiginlega markmiði að hjálpa þeim sem minnst mega sín í okkar samfélagi.

„Ég vil við þetta tækifæri þakka öllum ungu sjálfboðaliðunum fyrir þann anda sem þeir ljá hreyfingunni og það gildi sem þeir gefa mannúðarstarfi okkar,” segir Juan.

Ian Courtenay, formaður ungmennahreyfingar Alþjóða Rauða krossins, segir að þessi dagur gefi ungmennunum tækifæri til að halda á lofti því framlagi sem þau veita hreyfingunni í sínu landi. „Við þurfum að tryggja að við höldum á lofti því mikla framlagi sem við, sem ungir meðlimir og framtíð hreyfingarinnar, getum boðið. Við þurfum að taka frumkvæði á þessum degi, sem hefur verið tekinn frá til að halda starfi okkar á lofti, ekki aðeins til að sýna að við getum vel haldið uppi gildum hreyfingarinnar heldur til að sýna öðru ungu fólki þá ánægju sem við höfum af starfi okkar sem sjálfboðaliðar Rauða krossins.