Afmælishátíð URKÍ í Skagafirði

Jón Þorstein Sigurðsson

21. nóv. 2005

Ungliðahreyfingarnar sungu afmælissönginn í upphafi veislunnar.

Á laugardag hélt URKÍ (Ungmennahreyfing Rauða kross Íslands) upp á 20 ára afmæli sitt í Reykjavík. Ungmennadeildum á landsbyggðinni var boðið til veislunnar og/eða hvattar til að gera eitthvað í tilefni dagsins heima fyrir. 

Ungmennadeild Skagafjarðardeildar Rauða krossins og nýstofnuð Ungmennadeild Skagastrandardeildar tóku sig saman og buðu til sameiginlegrar og veglegrar veislu í húsnæði Skagafjarðardeildar á Sauðárkróki milli kl.16 og 20.

Formaður Ungmennadeildar Rauða krossins í Skagafirði og stjórnarmaður í Skagafjarðardeild, Jón Þorsteinn Sigurðsson, setti samkomuna, bauð gesti velkomna og greindi nánar frá tilefni hennar.
Um 40 manns mættu í veisluna og komu sumir langt að.  Meðal annars tvær konur frá Akureyrardeild Rauða krossins og svæðisfulltrúi Rauða kross deilda á Norðurlandi, Guðný Björnsdóttir en hún býr í Þingeyjarsýslu. Þess ber þó að geta að þær stöllur voru að koma af nýloknu námskeiði fyrir aðstandendur geðfatlaðra, áhugafólk og fagfólk sem haldið var á Sauðárkróki þessa sömu helgi. 

Frá vinstri: Ivano Tasin & Hákon Unnar Þórarinsson
Formaður Skagafjarðardeildar, Karl Lúðvíksson, kvaddi sér hljóðs og lýsti ánægju sinni með ungmennastarfið og gott samstarf við nýstofnaða Ungmennadeild á Skagaströnd. Sérstaklega nefndi hann til sögunnar þau Jón Þorstein, Ingunni, Fjólu og Önnu Margréti og bað þau að standa upp. Hann þakkaði þeim sérstaklega fyrir mikið og gott starf og veislugestir klöppuðu þeim lof í lófa.  Einnig fengu tveir sjálfboðaliðar viðurkenningu fyrir störf sín við Sumarbúðir Rauða krossins að Löngumýri auk annara starfa fyrir Rauða krossinn.  Það voru þeir Hákon Unnar Þórarinsson og Ivano Tasin, en þeir hafa verið sérstaklega ötulir stuðningsmenn URKÍ-deildarinnar hér í Skagafirði og auk þess haldið undir burðarstólinn í fjölmörgum fjallgöngum á vegum Sumarbúðanna og þannig stuðlað að ógleymanlegri upplifun fatlaðra einstaklinga allsstaðar að á landinu.

URKÍ-deildirnar kunna öllum þeim sem veittu stuðning og aðstoð við að undirbúa afmælisveisluna bestu þakkir fyrir.

Hér er hægt að sjá fleiri myndir. Ef smellt er á myndina opnast hún í stærri útgáfu: