Leiðsögn og stuðningur til aðlögunar

30. jan. 2006

Emily Huong Xuan Nguyen tekur þátt í verkefninu ?Framtíð í nýju landi."
Mynd: Pálmi Guðmundsson.

Að verkefninu Framtíð í nýju landi koma sex aðilar, þ.e. Menntamálaráðuneytið, Félagsmálaráðuneytið, Reykjavíkurborg, Rauði kross Íslands, Velferðarsjóður barna og Alþjóðahús sem hefur umsjón með fjármálum. Allir þessir aðilar eru með fulltrúa í stjórn sem tekur virkan þátt í að þróa verkefnið. Þetta er tilraunaverkefni og er tilgangurinn er að búa til líkan fyrir aðra hópa sem standa höllum fæti.

Hugmyndin að verkefninu er runnin undan rifjum Anh-Dao Tran, menntunarráðgjafa og verkefnisstjóra, og er meginhlutverk þess að aðstoða víetnömsk ungmenni við aðlögun að íslensku þjóðfélagi í gegnum menntun og virkni. ?Þessi hugmynd er þó ekki alfarið komin frá mér, ég kynntist sambærilegu verkefni þegar ég vann hjá samtökum í Bandaríkjunum þar sem unnið var með ungmenni frá Asíu,? segir Anh-Dao. 

Anh-Dao telur þörfina á verkefni sem þessu hafa verið mikla þar sem víetnamska samfélagið á Íslandi, sem nú telur um 400 einstaklinga, sé einangrað og að margir Víetnama hafi mjög lítil samskipti við aðra hópa samfélagsins en því meira innbyrðis. Þetta valdi því að þeir hafi ekki þá brú yfir í íslenska menningu sem æskileg væri.  

Leita í störf þar sem tækifæri til samskipta við Íslendinga eru lítil
Í verkefninu tekur þátt fólk á aldrinum 15-25 ára sem er búsett í Reykjavík. Reynslan hefur sýnt að þau leita í störf þar sem tækifæri til samskipta við Íslendinga eru lítil.  ?Aðstæður þeirra eru auðvitað misjafnar,? segir Anh-Dao. ?En þó eiga þau sem hópur margt sameiginlegt, m.a. hafa þau flest hætt í skóla. Þau skortir sjálfstraust og fá lítinn stuðning heima fyrir þar sem foreldrarnir búa við tungumálaerfiðleika og skortir þekkingu á íslenskri menningu til að geta leiðbeint börnum sínum. Þetta unga fólk þarf því á leiðsögn að halda við að skipuleggja líf sitt til að verða virkari í samfélaginu.?

Til að ná sem bestum árangri er litið á aðstæður hvers einstaklings fyrir sig og skoðað út frá heildarsýn hvar og hvernig stuðningur kemur sér best fyrir viðkomandi. Meðal þeirra atriða eru foreldrarnir, menntunin, afþreying, samfélagstengsl og svokallaðir mentorar eða liðveisla. 

Vettvangur til að kynnast íslenskri menningu 
 ?Mentorar eru vettvangur fyrir fólkið að kynnast íslenskri menningu og tungumáli betur auk þess sem þeir eru fyrirmyndir sem ætlað er að gefa þeim sem taka við hugmyndir um hvað hægt er að hafa fyrir stafni hér á landi. Einnig virkar þetta verkefni í hina áttina, þ.e. víetnömsku krakkarnir sem hafa mentor gefa líka til baka og skapa þar með meiri skilning hins íslenska samfélags á menningu þeirra sem stuðlar að góðu fjölmenningarsamfélagi.?

Anh-Dao segir að reynt sé að velja saman fólk sem hafi svipuð áhugamál og rætt er um hvernig sambandinu skuli hagað en aðilarnir hittast 2-3 tíma í viku hverri. ?Þetta er fullorðið fólk og við virðum óskir einstaklinganna og blöndum okkur ekki í þeirra val eða annað sem þeim fer á milli. Komi hins vegar upp alvarleg vandamál sem gera það að verkum að annar hvor aðilinn treystir sér ekki til að halda samstarfinu áfram þá reynum við að hjálpa til við að finna lausn.?

Um þessar mundir eru átta mentorar þátttakendur í Framtíð í nýju landi en um er að ræða sjálfboðaliða. Þörf er á fleirum slíkum en þeir sem hafa áhuga er bent á að skrá sig hjá Rauða krossi Íslands. Leitað er eftir fólki eldra en 22ja ára og æskilegt er að viðkomandi eigi eitthvað sameiginlegt með þeim aldurshópi sem víetnömsku ungmennin koma úr. Geta má þess að konur virðast duglegri en karlar að taka þátt því í hóp núverandi mentora er aðeins einn karlmaður og sjö konur.

Erfitt að eignast íslenska vini
Emily Huong Xuan Nguyen er tvítug víetnömsk stúlka sem um þessar mundir stundar nám í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Hún hefur búið hér á landi í fimm ár og tekur nú þátt í verkefninu Framtíð í nýju landi. Aðspurð um hvers vegna, nefnir hún að sér finnist mikilvægt að leggja sitt lóð á vogaskálarnar til að koma menningu og skoðunum Víetnama á framfæri hér á landi.

Hún nefnir einnig að stuðning skorti því hér séu mörg ungmenni frá Víetnam sem hafa hætt í skóla og vita ekki hvað þau eiga að gera við líf sitt.

Menningin er öðruvísi
Emily er þó ekki í þeim hópi þar sem henni gengur vel í skólanum og stefnir á háskólanám í raungreinum. Hún segir það hafa komið á óvart þegar hún fluttist til landsins hve auðveldlega hún náði tökum á tungumálinu og náminu en hins vegar hafi verið erfiðara að eignast íslenska vini.

?Ég er opin manneskja og hef alltaf átt marga vini. En hér á ég mest erlenda vini. Íslenskir krakkar eru fínir en svolítið feimnir. Ég hef þó eignast vini í skólanum en við erum ekkert saman utan skólans. Í Víetnam er menningin allt öðruvísi, ef vinahópurinn sér einhvern sem er einn á báti, og virðist leiður, hefur hann frumkvæði að því að fá hann með í hópinn. Hér á landi verður einstaklingurinn að nálgast hópinn sem getur verið erfitt.?

Kínversk stjörnuspeki og saga
Mentor sem Emily hefur er með próf í líffræði og nýtir sér þekkingu hennar á háskólanámi óspart. ?Ég hef spurt hana um allt sem snýr að háskólanámi þar sem ég stefni á háskólanám í raungreinum. Það er gott að hafa einhvern sem þekkir til. Ég hef líka fengið hana til að hjálpa mér með sögunámið mitt, ég mætti með kennslubókina mína í hvert skipti sem við hittumst og spurði hana spjörunum úr. Það hjálpaði mér mikið. Ég reyni líka að gefa til baka, kynna hana fyrir minni menningu og hef til dæmis sagt henni ýmislegt um kínverska stjörnuspeki og hvað hún segir um líf hennar. Það er skemmtilegt.?

Emily og mentorinn hafa verið duglegar að hittast. Þær fara á kaffihús, í keilu eða sitja bara og spjalla um daginn og veginn, lífið og tilveruna - sem er nokkuð á skjön við það sem Emily gerði sér í hugarlund þegar hún flutti til landsins.