Fróðlegt erindi um Palestínu

3. nóv. 2006

Í gær fengu félagar í Ungmennahreyfingu Rauða krossins í Hafnarfirði (URKÍ-H) góðan gest. Var þar á ferð Amal Tamimi sem starfar sem fræðslufulltrúi í Alþjóðahúsinu. Tilefni heimsóknarinnar var að fræða URKÍ-H félaga um heimaland Amal, Palestínu, og líf barna og unglinga þar.

Heimsókn Amal er hluti af vegabréfa verkefni URKÍ-H sem miðar að því að kynna ungu fólki líf og aðstæður í ólíkum löndum. Gestir koma og kynna heimaland sitt eða land þar sem viðkomandi hefur búið um lengri eða skemmri tíma. Skoðaðar eru myndir, hlustað á tónlist og stundum bragðað á einhverju góðgæti frá viðkomandi landi.

Erindi Amal var mjög fróðlegt og vakti forvitni. Ekki einungis sagði hún frá  hvernig líf barna er í dag í Palestínu heldur einnig hvernig var að vera lítil stelpa í Palestínu og hvernig það var fyrir hana að flytja til Íslands.

Ungmennastarfið fer fram alla fimmtudaga frá 17:30-19:00 í Sjálfboðamiðstöðinni Strandgötu 24. Starfið er ætlað börnum í 7. bekk og eldri og er þátttaka gjaldfrjáls og öllum heimil. Nánari upplýsingar um ungmennastarfið má fá í síma 565-1222