Sumarið er tíminn - áhættutími ?

2. jún. 2006

Sumarið er tími bjartra sumarnátta og aukins frítíma ungs fólks og foreldra þeirra. Því miður fylgir sumrinu einnig aukin neysla áfengis- og annarra vímuefna meðal ungmenna. Of mörg ungmenni lenda í bílslysum, verða fyrir nauðgun eða taka þátt í kynlífi sem þau iðrast daginn eftir. Margt af þessu gerist þegar ungt fólk notar áfengi og verður varnarlaust vegna þess. Mikilvægt er að haft sé í huga að það er lögbrot að útvega ungmennum undir 20 ára áfengi.

Á þetta var lögð áhersla á blaðamannafundi sem SAMAN- hópurinn boðaði til í Grasagarðinum í gær.

Á fundinum fjallaði Ágúst Mogensen framkvæmdastjóri rannsóknarnefndar umferðarslysa um unga ökumenn, sumarið og umferðarslys, Margrét Blöndal hjúkrunarfræðingur á Neyðarmóttöku talaði um ungt fólk og kynferðislegt ofbeldi, Hildur Björg Hafstein verkefnastjóri á Lýðheilsustöð fjallaði um aukna neyslu ungmenna milli skólaára og mikilvægi tengsla foreldra og barna í því samhengi. Hún kynnti einnig nýjar auglýsingar sem SAMAN hópurinn hefur staðið fyrir í formi veggspjalda. Þau eiga að styðja forelda í uppeldishlutverkinu. Að lokum kom Ösp Árnadóttir framkvæmdastjóri Jafningjafræðslunnar og kynnti starfsemi hennar ásamt ungu fólki sem munu vinna hjá henni í sumar.

SAMAN-hópurinn er samstarfsvettvangur frjálsra félagasamtaka og stofnana sem láta sig varða velferð barna. Í hópnum situr einn fulltrúi frá Rauða krossinum.

Markmiðið með starfi hópsins er að styðja og styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu. SAMAN-hópurinn hefur auk blaðaskrifa m.a. notað ýmis konar auglýsingar til að koma skilboðum á framfæri við foreldra í tengslum við tímabil og atburði sem líklegt er að aukning verði á neyslu vímuefna meðal ungmenna. Rausnarleg framlög frá Forvarnasjóði, Pokasjóði, Íslandspósti, Kópavogsbæ og Reykjavíkurborg hafa gert hópnum kleift að standa straum af gerð og dreifingu auglýsinga.

Hægt er að nálgast veggspjöldin í PDF formati:

Best að vera heima þegar gest ber að garði

Hvaða lögbrot finnst þér í lagi að fremja?