Er lífið erfitt?

Brynhildi og Elfu Dögg verkefnisstjóra Reykjavíkurdeildar

7. mar. 2006

Átaksvika Hjálparsíma 1717 er að þessu sinni helguð málefnum barna og unglinga.
Tilgangur átaksvikunnar er m.a. að minna börn og unglinga á að 1717 er einnig ætlaður þeim, en Hjálparsíminn 1717 er nú ætlaður öllum aldurshópum. Einnig er ætlunin að vekja athygli á vandamálum sem börn og unglingar geta haft, benda á leiðir/úrræði og hvetja til umræðu.

Hjálparsími Rauða krossins 1717 gegnir því hlutverki að veita ráðgjöf og hlustun til fólks á öllum aldri sem þarf á stuðningi að halda t.d. vegna þunglyndis, kvíða eða sjálfsvígshugsana. Meðal hlutverka Hjálparsímans 1717 er einnig að vera til staðar fyrir einmana fólk og veita upplýsingar um samfélagsleg úrræði. 

Heildarfjöldi símtala til Hjálparsímans eru um 16 þúsund á ári ef allir aldurshópar eru teknir. Í gegnum tíðina hafa símtöl frá börnum og unglingum verið á bilinu 2-3 þúsund og eru ástæður þeirra af ýmsum toga. Flest símtölin eru vegna félagslegra vandamála en einnig berast mörg símtöl vegna þunglyndis, fíkniefnavanda, einmanaleika og eineltis. Unglingar hringja gjarnan með spurningar um kynlíf, þunganir og getnaðarvarnir og margir eru að velta fyrir sér sjálfsmynd sinni og kynhneigð. Yfir 300 símtöl bárust Hjálparsímanum í fyrra vegna sjálfssvígshugsana, þar af um fimmtungur frá ungu fólki. Leitast er við að benda á viðeigandi leiðir og úrræði sem henta hverjum og einum. Hjálparsíminn hefur yfir að ráða upplýsingum um margs konar félagasamtök, stofnanir og önnur úrræði sem innhringjendur geta nýtt sér sem leið úr vanda sínum.

Hjá Hjálparsímanum 1717 er fólki gert kleift að opna á viðkvæm málefni í nafnleynd og trúnaði. Mörgum finnst erfitt að ræða vandamál sín augliti til auglitis við einhvern en finnst auðveldara að gera það fyrst í gegnum síma. Reynt er að benda á viðeigandi leiðir og úrræði en það er í valdi hvers og eins hvort hann nýti sér þau í framhaldinu. Mörgum finnst gott að fá að tala við einhvern sem er tilbúinn að hlusta og koma þannig tilfinningum sínum í orð.

Það má til sanns vegar færa að það virðist vera full þörf á þjónustu eins og Hjálparsími Rauða krossins er að veita miðað við þá aukningu sem orðið hefur á símtölum þau tvö ár sem síminn hefur starfað í núverandi mynd. Þreföldun hefur orðið á fjölda símtala á þessum tíma og virðist ekkert lát vera á. Skýringin fyrir þessari aukningu er ekki alveg ljós en það má leiða að því líkum að eftir því sem þjónustan festist í sessi og fleiri vita af henni þá verði það til þess að fleiri nýti sér hana.

Hjálparsíminn 1717 veitir sólarhringsþjónustu alla daga. Í hann svara starfsmenn og sjálfboðaliðar. Mikil áhersla er lögð á að svarendur 1717 séu vel undirbúnir og hafi hlotið þá nauðsynlegu þjálfun sem ætlast er til af fólki sem gefur kost á sér til þessara starfa.

Áður en sjálfboðaliðar hefja símsvörun gangast þeir undir markvissa þjálfun og fræðslu sem inniheldur m.a. fræðslu um starf Rauða krossins innanlands sem utan, sálrænan stuðning, viðtalstækni og fleira. Allir sjálfboðaliðar Hjálparsímans sitja námskeið sem inniheldur viðtæka fræðslu m.a. um geðraskanir, verklagsreglur og viðtalstækni vegna sjálfvígssímtala og fleira sem snýr að starfinu. Sjálfboðaliðum er boðið upp á handleiðslu hjá sálfræðingi einu sinni í mánuði sem þeir nýta sér sem fræðslu og til að vinna úr erfiðum símtölum. Það er alltaf þörf fyrir gott fólk til að svara í Hjálparsímann svo ef þið viljið láta gott af ykkur leiða og eruð tilbúin í að gerast sjálfboðaliðar þá er Hjálparsími 1717 kjörin leið til þess.

Ef lífið reynist þér eða einhverjum nákomnum erfitt mundu þá eftir símanúmeri Hjálparsíma Rauða krossins 1717 því við erum til staðar allan sólarhringinn allt árið um kring.