Leiðbeinendur í ungmennastarfi miðla reynslu sín á milli

5. okt. 2006

Leiðbeinendanámskeið í barna- og ungmennastarfi Rauða krossins var haldið á dögunum. Þar hittust leiðbeinendur frá ýmsum deildum félagsins, sem þegar halda úti barna- og ungmennastarfi og þeir sem hyggja á starf. Hlýddu þeir á fræðslu um hlutverk leiðbeinandans og miðla þekkingu og reynslu deilda.

Á námskeiðinu, sem fram fór 22. til 23. september, fjallaði Ólöf Ásta Farestveit uppeldis- og afbrotafræðingur hjá Barnahúsi um ofbeldi gegn börnum t.d. út frá öryggi í starfi og skyldum og hlutverki starfsmanna og/eða leiðbeinenda. Í fyrirlestri hennar kom meðal annars fram að gríðarlega mikilvægt er að leiðbeinendur séu fyrirmyndir og beri ábyrgð gagnvart börnum og ungmennum, þeir þurfi að átta sig á að þeir hafi ríka tilkynningarskyldu gagnvart börnum ef þeir finna að ekki sé allt með felldu í umhverfi barnsins.

Farið var yfir handbók í barna- og ungmennastarfi Rauða krossins sem gerð var sl. vor og send til allra deilda. Í handbókinni er tekið á ýmsum þáttum sem máli skipta í starfi með börnum og unglingum en einnig má þar finna hugmyndir að ýmsum verkefnum og leikjum í slíku starfi.

Fulltrúar frá ýmsum deildum sögðu frá verkefnum sem börn og unglingar starfa að. Fanney Karlsdóttir frá Kópavogsdeild kynnti verkefnið Eldhugar: „Verkefnið miðar að því að ungmenni í Kópavogi af íslenskum og erlendum uppruna vinni saman að því að byggja betra samfélag án mismununar og fordóma. Unnið er með hugtök eins og vinátta, virðing og umburðarlyndi í gegnum skapandi verkefni eins og ljósmyndun, teiknimyndasögugerð, leiklist og dans,” segir Fanney.

Áshildur Linnet frá Hafnarfjarðardeild talaði um ólíka menningarheima og samskipti við erlenda foreldra. „Mikilvægt er að vera í góðu sambandi við foreldra sama hvort það eru erlendir eða íslenskir foreldrar. Til að koma til móts við erlenda foreldra er upplagt að senda þeim stutt skilaboð um hvað starfið snýst á þeirra tungumáli. Þannig tryggjum við að allir skilji tilgangs starfs okkar,“ segir Áshildur.

Eins var rætt um það hvernig best er að halda úti starfi í litlu samfélagi og hvað ber að hafa í huga til að halda starfinu gangandi, hvernig sé að vera einn á báti með ungmennastarf, galdurinn við að missa ekki ungt fólk úr starfi og eins var fjallað um hvatningu í starfi.

„Við gefum mikið af okkur og fáum mikið í staðinn í starfi með ungu fólki,” segir Guðjón Ebbi sem heldur utan um barna- og ungmennastarf Skagastrandadeildar. „Það er mikið samstarf milli Skagastrandardeildar og Skagafjarðardeildar í barna- og ungmennamálum. Það styrkir og eflir starfið að vinna svona saman að ýmsum verkefnum,“ segir Jón Þorsteinn úr Skagafjarðardeild.

Ungmennahreyfing Rauða krossins (URKÍ)

Á námskeiðinu kynnti Ingibjörg Halldórsdóttir ungmennahreyfingu Rauða krossins sem er vettvangur fyrir ungt fólk sem vill vinna í anda mannúðarhugsjónarinnar. „Ungt fólk í Rauða krossinum vinnur að félagsstarfi og stuðningi með fötluðum börnum og ungum innflytrjendum, veitir skyndihjálp á fjöldasamkomum, flokkar og selur notuð föt, heldur námskeið um aðstæður flóttamanna og vinnur gegn fordómum og mismunun”.

Öllum er velkomið að taka þátt í barna- og ungmennastarfi Rauða krossins og er áhugasömum bent á að hafa samband við deildina í sinni heimabyggð eða hringja í landsskrifstofu Rauða krossins, s. 570-4000.