Framhaldsnámskeið fyrir leiðbeinendur í barna- og unglingastarfi

28. nóv. 2006

Þann 18. nóvember síðastliðinn var haldinn annar hluti námskeiðs fyrir leiðbeinendur í barna- og ungmennastarfi. Þátttakendur voru 25 víðsvegar að af landinu.

Námskeiðið hófst á því að Eygló Rúnarsdóttir, verkefnisstjóri hjá ÍTR, talaði um hlutverk leiðbeinenda í félagsstarfi, aga og hegðun. Konráð Kristjánsson kynnti Byggjum betra samfélag, hvað hefur verið gert og hvað væri framundan. Síðan var unnið í hópum. Hóparnir áttu að útskýra hvað felst í hugtökunum félagsleg einangrun, fordómum og mismunun og hvernig hægt væri að vinna með þessi hugtök undir Byggjum betra samfélag og tengt þetta verkefnum í barna- og ungmennastarfi.

Áshildur Linnet, Hafnarfjarðardeild, kynnti hugmynd að hátíðarverkefni sem hún ætlar að vera með í barnastarfi deildarinnar fyrir jólin. Þar munu krakkarnir taka fyrir ólíkar hátíðir í löndum, vinna veggspjöld og kynna fyrir hinum. Síðan er stefnt á að halda sýningu þar sem foreldrum, stjórnarfólki og sjálfboðaliðum verður boðið. Ingunn Ásta frá Kópavogsdeild hélt kynningu á niðurstöðum lokaritgerðar sinnar í uppeldis- og menntunarfræðum en hún fjallaði um tengsl útlits kvenna í tónlistarmyndböndum og líkamsímyndar íslenskra unglingsstúlkna. Að lokum kynni Anna verkefnisstjóri Rauða kross Íslands forvarnarhópa sem hún starfar í fyrir hönd félagsins, SAMAN hópinn og Náum áttum hópinn.

Námskeiðið var líflegt og fróðlegt og var almenn ánægja með það. Og það er ekki bara fræðslan sem skilar sér með því að taka þátt í námskeiðunum, heldur þau tengsl sem mynduð eru milli leiðbeinenda víðsvegar að af landinu.