Sérlega vel heppnuð vorferð barna og ungmenna

22. maí 2007

Í síðustu viku héldu börn og ungmenni sem taka þátt í Rauða kross starfi á höfuðborgarsvæðinu í sína árlegu vorferð. Ferðin var dagsferð þar sem frí var í skólum og því kjörið tækifæri fyrir alla í ungmennastarfi Rauða krossins til að hittast og kynnast og hafa gaman saman.

Dagskrá ferðarinnar var bæði skemmtileg og vegleg og slæmt veður kom ekki að sök. Förinni var heitið á Reykjanesskagann þar sem öllum var boðið í Vatnaveröld sem er nýr sundlaugaskemmtigarður. Þar á eftir var komið við í húsnæði Suðurnesjadeildar Rauða krossins þar sem öllum var boðið upp á pizzu. Grindavíkurdeild bauð svo öllum hópnum í miðdegishressingu og leiki.

Ferðin var afar vel heppnuð, börn og sjálfboðaliðar voru deildum sínum til sóma og allir komu heim glaðir og ánæðir með daginn. Metþátttaka var í ferðina í ár, rúmlega 70 börn og ungmenni auk sjálfboðaliða. Slík þátttaka verður að teljast mikið gleðiefni fyrir deildirnar.

Var þetta lokanhykkur ungmennastarfs deildanna fyrir sumarið sem hefst að nýju í haust. Þeir sem hafa áhuga á að gerast sjálfboðaliðar eru hvattir til að setja sig í samband við forsvarsmenn ungmennastarfs hjá deildunum.