Þjóðfélagsþegnar

Jón Þorstein Sigurðsson formann Ungmennahreyfingar Rauða krossins

30. maí 2007

Jón Þorsteinn Sigurðsson skrifar um fjölmenningarsamfélagið. Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. maí 2007.
Jón er formaður Ungmennahreyfingar Rauða kross Íslands, URKÍ.

Fyrr á öldum var föðurlandið mitt strjálbýlt og samgöngur erfiðar, Á sumrin gátu ferðalög verið torsótt en þó var það aðallega á vetrum sem þau voru því sem næst ómöguleg. Af þeirri orsök fyrst og fremst var einangrun fólks vítt og breitt um landið mikil. Þegar voraði og vetur konungur losaði tökin fór fólk á stjá. Ferðalög manna úr sveitum landsins tengdust fyrst og fremst því að fólk fór á vertíð og aftur heim þegar henni lauk. Svona gekk lífið fyrir sig í gegnum árhundruðin, lítið breyttist og allar breytingar voru hægfara. Síðan fór þetta að breytast, t.d. vegna bættra samgangna, betri menntunar og myndunar þéttbýliskjarna víðs vegar um landið þegar fólk fór í auknum mæli að flytjast á mölina.

Í dag búum við í fjölmenningarsamfélagi þar sem einstaklingar tala mörg ólík tungumál, eru oft annarrar trúar, með annan menningarbakgrunn og þar af leiðandi oft önnur viðmið og aðra siði. Menning þessa fólks er ekki alltaf lík þeirri sem fyrir er hér á landi og hefur þróast með íslensku þjóðinni í aldir. Þeim fjölgar með degi hverjum nýju Íslendingunum sem eru að taka að sér störf og verkefni sem landsmenn hafa lítinn áhuga á að sinna og yfirleitt standa erlendir starfsmenn sig með prýði en uppskera ekki alltaf þá verðskulduðu viðurkenningu sem þeir eiga skilið fyrir störf sín, sem oftar en ekki eru líkamlega erfið og vanþakklát. Jafnframt mæta þeir stundum andstreymi þar sem viðkomandi einstaklingar eiga erfitt með að tileinka sér siði og venjur heimamanna. Munurinn er sá að þennan hóp mynda ekki menn og konur, sem eru alin upp við svipaða siði og venjur og við, að ferðast á milli landshluta, heldur fólk af ólíku bergi brotið og jafnvel frá fjarlægum heimsálfum að koma til nýs lands.

Koma fólks hingað frá fjarlægum löndum til lengri eða skemmri dvalar er undir sömu formerkjum og áður þegar fólk fluttist búferlum milli landshluta - málið snýst um leit að betra lífi. Veigamiklir þættir í því að sú leit beri árangur er að fólki finnist það velkomið og að það geti orðið partur af samfélaginu. Ein leið að því marki er að taka þátt í félagsstarfi ýmiskonar þar sem fólk úr ýmsum áttum og með ólíkan bakgrunn vinnur að sameiginlegu markmiði. Því vill Rauði krossinn, sem vinnur að mannúðarmálum sem eiga að efla lífsgildi fólks sem á undir högg að sækja eða stendur höllum fæti í þjóðfélaginu, hvetja innflytjendur á öllum aldri til að ganga til liðs við Rauða krossinn. Meðlimir samtakanna hafa það að markmiði að sinna þeim fjölbreyttu verkefnum sem Rauði krossinn vinnur að nú um stundir og að vera þátttakendur í góðum hópi félagsmanna sem vinnur að eflingu Rauða krossins á heimsvísu.