Krakka- og ungmennastarf Akranesdeildar

1. nóv. 2011

Rauði krossinn á Akranesi býður jafnan upp á fjölbreytt verkefni fyrir ungt fólk og leggur áherslu á að hvetja þau til þátttöku í mannúaðarstarfi. Flest miða ungmennaverkefnin að því að vinna gegn fordómum og kenna ungu fólki að meta fjölbreytileika mannlífsins.

Undanfarin þrjú ára hafa um 200 krakkar tekið  þátt í verkefninu Gaman Saman. Verkefni er unnið í samstarfi við Rut Jörgensdóttur Rauterberg og Frístundahópinn í Þorpinu, en hann skipa elstu börnin í sérdeild Brekkubæjarskóla. Gaman Saman er fyrir krakka í  5. – 7. bekk og hefur það að markmiði að leiða saman börn með fötlun og án, af íslenskum og erlendum uppruna í bland, og sýna þeim að allir geta haft gaman saman, hversu ólík sem við annars erum. Með þessum hætti getum við unnið gegn fordómum og mismunun.

Af öðrum verkefnum má nefna Húllumhæ með kátum krökkum í  Holti, sumardvöl fyrir börn með fötlun. Einn dag á sumri skipuleggja sjálfboðaliðar deildarinnar skemmtidag fyrir krakkana í Holti. Þá er sko mikið fjör. 

Á hverju ári heimsækir fjöldi tombólubarna Akranesdeildina með afrakstur safnana sem þau hafa ráðist í til aðstoðar bágstöddum börnum í fátækum löndum. Upphæðirnar sem krakkarnir safna á ársgrundvelli skipta tugum þúsunda og
Rauði krossinn er ákaflega stoltur af krökkunum sem sýna mannúð þegar á reynir.

Á hverju hausti heimsækir starfsfólk Rauða krossins börn í leik- og grunnskólum á Akarnesi og í Hvalfjarðarsveit og færir þeim að gjöf endurskinsmerki. Við þetta tækifæri fá krakkarnir svolitla fræðslu um Rauða krossinn og að lokum gera þau endurskinstilraun sem undirstrikar hversu miklu máli það skiptir að bera endurskinsmerki í skammdeginu.
Undanfarin ár hefur Rauða krossinn á Akranesi verið í samstarfi við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.  Nemendum skólans býðst að skrá sig í áfangann SJS – sjálfboðið starf -  og sinna fjölbreyttum verkefnum fyrir Rauða krossinn. Fyrir störf sín fá nemendur einingu. Á haustönn 2011 eru 18 nemendur skráðir í SJS.

Nú á haustmánuðum er Rauði krossinn svo að fara af stað með tvö ný verkefni fyrir krakka, barnastarf fyrir krakka í 3. – 5. bekk á mánudögum kl. 14.30 -  16.00 í Rauða kross húsinu. Krakkarnir fá fræðslu um Rauða krossinn og sinna einföldum mannúðarverkefnum. Á fimmtudögum klukkna 14.30 – 16.00 hittast svo krakkar í 9. bekk sem þurfa aðstoð með heimanámið. Eldri sjáflboðaliðar verða til staðar til að liðsinna krökkunum með námið.