Unglingastarfið á fullt eftir sumarfrí

14. ágú. 2007

Hjá Kópavogsdeild Rauða krossins eru starfandi tveir hópar ungs fólks, Enter og Eldhugar. Starfsemin hefur legið niðri í sumar en í september hefst starfið af fullum þunga að nýju.

Enter er starf með ungum innflytjendum 9-12 ára sem felur í sér málörvun og tómstundastarf fyrir nemendur í móttökudeild fyrir nýbúa í Hjallaskóla. Á miðvikudögum kl. 14.00-15.30 koma nemendurnir í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar þar sem þeir fá málörvun í gegnum fjölbreytta fræðslu og leiki sem og upplýsingar um félagsstarf og menningu á höfuðborgarsvæðinu í gegnum kynningar og vettvangsferðir. Markmið verkefnisins er að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því.

Eldhugar eru ungmenni á aldrinum 13-16 ára af íslenskum og erlendum uppruna sem hittast í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar á fimmtudögum kl. 17.30-19.00. Eldhugar vinna skemmtileg og skapandi verkefni sem miða að því að byggja betra samfélag án mismununar og fordóma. Unnið er með hugtök eins og vinátta, virðing og umburðarlyndi í gegnum ljósmyndun, leiklist, kynningum á erlendum menningarheimum o.fl. Sjálfboðaliðar taka þátt í og stýra starfinu í samstarfi við fagfólk á ýmsum sviðum sem einnig gefur vinnu sína.

Deildina vantar sjálfboðaliða til að sinna sitt hvorum hópnum í vetur. Verkefni sjálfboðaliða fela í sér að skipuleggja og stýra ungu fólki í spennandi viðfangsefnum. Það er undir sjálfboðaliðum komið hversu mikið af tíma sínum þeir gefa í verkefni, hvort sem það er í hverri viku, aðra hvora viku eða sjaldnar. Skipulagsfundir fyrir hópana verða haldnir í byrjun september þar sem útlínur að starfi vetrarins verða dregnar. Verkefnin bjóða upp á einstakt tækifæri til að láta gott af sér leiða og öðlast dýrmæta reynslu. 

Áhugasamir geta skráð sig í síma 554 6626 eða á [email protected]