Námskeið fyrir leiðbeinendur í barna- og ungmennastarfi

21. sep. 2007

Haldið var tveggja daga námskeið fyrir verðandi leiðbeinendur í barna- og ungmennastarfi innan Rauða krossins um síðustu helgi. Eldri leiðbeinendur tóku þátt seinni daginn.

Í fyrri hlutanum var farið yfir hlutverk leiðbeinanda og nýuppfærð handbók í barna- og unglingastarfi félagsins kynnt. Seinni daginn miðluðu leiðbeinendur frá nokkrum deildum félagsins reynslu sinni af starfinu auk þess sem góðir gestir mættu á svæðið með áhugaverð umfjöllunarefni.

Helga Arnfríður, sálfræðingur hjá þjónustumiðstöð Vesturbæjar, hélt mjög áhugaverðan fyrirlestur um vinnu með börnum. Hún fjallaði meðal annars um námsörðugleika, þroska barna og unglinga, félagslegar aðstæður sem hafa áhrif á þroska og hvernig á að nálgast börn og vinna með þeim.

Jóna Margrét Ólafsdóttir félagsráðgjafi hélt fyrirlestur um unglinga og vímuefnamál. Hún fór yfir þætti eins og einkenni vímuefnanotkunar, forvarnir og hvernig beita eigi viðeigandi inngripi í vímuefnaneyslu.

Þrjú ungmenni; Chang Long Xu frá Kína, Raúl Saenz frá Mexíkó og Laura Carolina Acosta Gomez frá Kólumbíu, spjölluðu við þátttakendur um hvernig það er að vera ungur innflytjandi á Íslandi. Lifandi umræður sköpuðust og óþrjótandi spurningar vöknuðu sem bæði ungmennin og þátttakendur tóku virkan þátt í.

20 manns tóku þátt í námskeiðinu frá ýmsum deildum félagsins. Þeir sem áhuga hafa á að taka þátt í barna- og ungmennastarfi Rauða krossins er bent á að hafa samband við deildina í sinni heimabyggð eða hringja í landsskrifstofu Rauða krossins í síma 570 4000.