Skemmtilegir krakkar í Enter og Eldhugum hittast aftur eftir sumarfrí

24. sep. 2007

Starf Kópavogsdeildar með ungmennum, Enter og Eldhugar, fór aftur af stað af fullum krafti í síðustu viku. Enter-hópurinn eru ungir innflytjendur 9 -12 ára sem koma úr móttökudeild nýbúa í Hjallaskóla. Eldhugar skipa 13-16 ára ungmenni víðs vegar að úr Kópavogi, íslensk og erlend.
 
Krakkarnir í Enter byrjuðu á því að fara í nafnaleiki til að hrista af sér feimni og læra nöfn allra í hópnum. Einnig sögðu þau aðeins frá sér til að kynnast hvert öðru betur. Gaman er frá því að segja að í hópnum eru krakkar með alls konar þjóðerni, frá eins ólíkum löndum og Nepal og Þýskalandi.

Eldhugar byrjuðu einnig á því að kynna sig en föndruðu síðan sérlega útbúin vegabréf sem notuð verða í starfinu í vetur. Farið verður í svokallaðar „vegabréfaheimsóknir” þar sem Eldhugar fá kynningu á framandi landi frá einhverjum sem hefur dvalið þar eða alist upp. Þau nota vegabréfin til að punkta hjá sér það sem þeim finnst áhugavert í hverri kynningu fyrir sig. Í vikunni verður farin vegabréfaheimsókn til Mósambík.

Enter-hópurinn kemur saman á miðvikudögum í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar frá kl. 14.00-15.30 þar sem sjálfboðaliðar veita þeim málörvun í gegnum leiki og fræðslu. Eldhugar hittast aftur á móti á fimmtudögum frá kl. 17.30-19.00 og er markmið þeirra að byggja betra samfélag án mismununar og fordóma með því að leggja áherslu á vináttu, virðingu og umburðarlyndi.

Áhugasamir sem vilja taka þátt í Eldhugum geta haft samband við sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar í síma 554 6626 eða á kopavogur@redcross.is.

Enn vantar okkur fleiri sjálfboðaliða í Enter og áhugasamir geta einnig haft samband í síma 554 6626 eða á kopavogur@redcross.is.