Ungmenni af erlendum uppruna ræða framtíð sína á Íslandi

24. sep. 2007

Mánudaginn 24. september stendur hópur ungs fólks af erlendum uppruna fyrir málþingi um stöðu sína og framtíð í íslensku þjóðfélagi. Málþingið er haldið í hátíðarsal Menntaskólans við Hamrahlíð og hefst kl. 08:30, og stendur til 12:30.

Tilgangurinn með málþinginu er að láta rödd ungmenna, sem hafa flust hingað til lands og eiga hér heima, heyrast og auka þannig skilning milli þeirra og annarra landsmanna. Þarna gefst  ungu fólki á aldrinum 16 til 25 ára loksins tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri um hvernig hægt sé að byggja framtíð Íslands með tilliti til allra sem hér búa og stuðla að heilbrigðu umhverfi fyrir samfélagið sem heild. Þau vilja með þessu sýna frumkvæði og taka virkan þátt í mótun íslensks fjölmenningarsamfélags.

Málþingið er haldið í samvinnu við Framtíð í nýju landi sem er samstarfsverkefni Rauða krossins, Reykjavíkurborgar, Alþjóðahúss, Velferðarsjóðs barna, stéttarfélagsins Eflingar, ásamt mennta- og félagsmálaráðuneyti. Verkefninu er ætlað að aðstoða ungmenni af erlendum uppruna við að afla sér menntunar og skipuleggja líf sitt til að verða að virkum þátttakendum í íslensku samfélagi.