Tómstundahópur fyrir fatlaða Skagafirði

25. sep. 2007

Skagafjarðardeild Rauða kross Íslands fór árið 2006 af stað með verkefni sem kallast „Tómstundahópar fyrir fatlaða”.

Tómstundahópurinn hittist einu sinni í viku yfir vetrarmánuðina til að fylgja eftir viðburðum sem þátttakendur hafa áhuga á að taka þátt í með það að markmiði að auka félagsfærni þeirra.

Spánn 2007
Þann 7. júní 2007 hélt rúmlega 40 manna hópur upp í 2ja vikna ferð til Spánar. Hugmynd að ferðinni kviknaði haustið 2006. Ferðalangarnir samanstóðu af félögum úr tómstundahópnum og valinkunnu liði sjálfboðaliða sem var til aðstoðar.

Haldið var til á Playa Marina II hótelinu í Cabo Roig nálægt Torrevieja, en það hentaði sérlega vel. Undirbúningur fyrir ferðina var í höndum Costablanca.is sem einnig sá um að skipuleggja ferðir og viðburði.

Meðal þess sem hópurinn tók þátt í var heimsókn í Safari dýragarðinn í Elche, Aquopolis vatnagarðinn og Terra Mitica skemmtigarðinn. Einnig var farið í strandferð og sveitaferð þar sem hægt var að fara á hestbak, á fjórhjól og stunda bogfimi. Að auki var farið í bæjarferðir, verslunarmiðstöðvar og leiktækjasali. Ekki má gleyma 17. júní skrúðgöngu og grillveislu sem haldin var í samvinnu við Costablanca.is, en alls tóku yfir 100 manns þátt í þeim hátíðarhöldum.

Skemmst er frá því að segja að ferðin tókst í alla staði frábærlega og skemmti hópurinn sér konunglega. Allir voru af vilja gerðir til að gera dvölina sem ánægjulegasta og eiga starfsmenn Playa Marina II hótelsins sem og Bjarni og Óli hjá Costablanca.is þakkir skyldar fyrir.

Hópurinn vill koma á framfæri þökkum til styrkaraðila sinna og þá sérstaklega Kaupfélags Skagfirðinga sem og annarra fyrirtækja og félagasamtaka sem styrktu hópinn til ferðarinnar.

Þeim sem vilja leggja hópnum frekara lið er bent á reikning hans í KB Banka, en nánari upplýsingar um reikningsnúmer, sem og um hópinn og Spánarferðina (ferðasögur og myndir) er að finna á http://www.thrki.net.