Fjallað um flóttamenn á landsmóti URKÍ

9. okt. 2007

Mikið fjör var á vel sóttu landsmóti Ungmennahreyfingar Rauða krossins á Kjalarnesi um helgina. Ýmislegt skemmtilegt var brallað á kvöldvökum, farið var í sund, leiki og skemmtilega hópavinnu.

Þema mótsins var flóttamenn. Atli Viðar Thorstensen, verkefnisstjóri Rauða krossins í málefnum flóttamanna og hælisleitenda flutti athyglisvert erindi og sýndi kvikmynd um efnið.

Í hópavinnu þurftu þátttakendur meðal annars að setja sig í það hlutverk að flýja Ísland vegna ofsókna og setjast að í ólíku landi. Ungmennin náðu þannig að skyggnast aðeins inn í heim tuga milljóna flóttamanna um allan heim sem búa við óöryggi, ótta og verða jafnvel fyrir kynþáttafordómum. Fræðslan miðaðist við að draga úr fordómum og fá unga sjálfboðaliða Rauða krossins til að skilja betur aðstæður fólks sem neyðist til að yfirgefa heimalandið og setjast að á ókunnum slóðum. Sjá veggspjöld.

Þeir sem vilja kynna sér betur starfsemi Ungmennahreyfingar Rauða krossins eru hvattir til að setja sig í samband við deildir félagsins eða landsskrifstofu.