Ungmenni sækja á innan Alþjóða Rauða krossins

28. nóv. 2007

Formaður ungmennahreyfingar Rauða kross Íslands, URKÍ, Jón Þorsteinn Sigurðsson sat fund Alþjóðahreyfingar Rauða krossins og Rauða hálfmánans sem haldinn var í Genf í síðustu viku.

Helsta breytingin á lögum sem snerta ungmenni innan Alþjóða Rauða krossinn var að Ungmennaráðið (Youth Commission) var sett í fastari skorður innan laganna auk þess sem formaður nefndarinnar á nú fast sæti í stjórn alþjóðahreyfingarinnar.

„Þar með eru ungmenni innan Rauða krossins að sækja á innan hreyfingarinnar og vonast er til að fleiri landsfélög sendi fulltrúa ungmenna á fundi í framtíðinni,” segir Jón Þorsteinn.  „Það var samdóma álit ungmenna sem hittust reglulega á hliðarfundum að sameinaður kraftur okkar er afl sem ekki er hægt að horfa framhjá."

Fimm landsfélögum voru veitt ungmennaverðlaun; Kosta Ríka fyrir verkefni í sálrænum stuðningi, Úganda fyrir alnæmisverkefni, Noregi fyrir að þróa hlutverkaleik sem snýr að flóttamönnum og ameríska og ítalska landsfélagið fengu verðlaunin fyrir að efla leiðtoga meðal ungmenna og taka aukinn þátt í verkefnum landsfélaganna.