Nýr kafli í fræðsluefninu Ef bara ég hefði vitað

17. des. 2007

Rauði krossinn hefur bætt nýjum kafla við vef-fræðsluefnið „Ef bara ég hefði vitað”. Kaflinn heitir Ungar mæður og tekur á ýmsum málum sem varða kynlíf unglinga.

Á unglingsárunum verða margar líkamlegar, félagslegar og andlegar breytingar. Unglingurinn byrjar til dæmis að þroskast sem kynvera og kynferðislegar langanir vakna. Margir unglingar eru óöruggir þegar kemur að kynlífi, t.d. hvernig þeir eiga að fara að því að koma í veg fyrir þungun og smit af völdum kynsjúkdóma. Oft er það svo að unglingum finnst að ekkert geti komið fyrir þá.

„Ef bara ég hefði vitað” er fræðsluefni sem fjallar um hvernig maður getur hjálpað sjálfum sér, og öðrum, þegar maður upplifir alvarlega atburði. Með alvarlegum atburðum er átt við t.d. skilnað, dauðsfall, umferðarslys, alvarlega ólæknandi sjúkdóma, þunglyndi, ástarsorg og einelti.

Sannar reynslusögur unglinga
Efnið byggist á nokkrum sönnum frásögnum unglinga sem hafa upplifað erfiða atburði í lífinu. Allar frásagnirnar eiga það sameiginlegt að þær lýsa því hvernig tekist er á við vandann og sálræn einkenni, sem oft fylgja í kjölfarið.

Til að geta hjálpað sjálfum sér eða annarri manneskju sem hefur upplifað alvarlega atburði er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því við hverju má búast. Vandi og erfiðleikar annarra geta gengið mjög nærri þeim sem eru í næsta umhverfi og eru að reyna að hjálpa. Gleymi fólk sjálfu sér í hjálparstarfinu er auðvelt að verða það sem kallað er á fagmáli „útbrunninn”.

Sú vitneskja sem kemur fram í þessu efni, getur vonandi orðið til þess að hægt sé að líta öðruvísi á vandann þannig að sá sem þetta les geti aukið færni sína til þess að hjálpa sjálfum þér, eða veita öðrum stuðning.

Ákjósalegt fræðsluefni t.d. í skólum
Þetta efni er ákjósanlegt sem kennsluefni í skólum fyrir nemendur efstu bekkja grunnskóla og í framhaldsskólum. Kennsluleiðbeiningar fylgja. Eins er hægt að benda nemendum á þetta lesefni sér til fróðleiks.

Efnið er eingöngu gefið út á vef Rauða kross Íslands, www.redcross.is/efbara. Það var upphaflega fengið frá danska Rauða krossinum og var þýtt og staðfært árið 2003. Síðan hefur Rauði kross Íslands bætt við efnið.