Sjálfboðaliðar óskast fyrir sumarmót Ungmennahreyfingarinnar

14. jan. 2008

Sumarmót Ungmennahreyfingar Rauða krossins, Viðhorf og virðing, verður haldið dagana 13.- 17. ágúst 2008 að Löngumýri í Skagafirði. Mótið er fyrir unglinga á aldrinum 13-16 ára og miðast fjöldinn við 30 manns. Þátttökugjald og dagskrá verða birt á vefnum á næstunni og opnað verður fyrir skráningu 20. febrúar næstkomandi.

Dagskrá mótsins verður blanda af gamni og alvöru. Unnið verður með viðhorf þátttakenda til ýmissa hópa og fá þeir m.a. tækifæri til að setja sig í spor þeirra í formi hlutverkaleikja. Einnig verður mikið lagt upp úr leikjum, ferðum, kvöldvökum og annarri skemmtun.

Auglýst er eftir sjálfboðaliðum, 18 ára og eldri, til að starfa sem leiðbeinendur við mótið. Ekki er nauðsynlegt fyrir sjálfboðaliðana að vera allan tímann heldur gefst þeim kostur á að velja sér daga til að starfa við búðirnar. Þeir fá svo stundatöflu að loknu leiðbeinendanámskeiði sem haldið verður í apríl.

Áhugasamir geta haft samband við Jón Brynjar Birgisson, verkefnisstjóra URKÍ á landsskrifstofu Rauða kross Íslands í síma 570 4000 eða á netfangið jon@redcross.is.