Hjálpfús áfram í Stundinni okkar

21. jan. 2008

Samstarf Rauða krossins og Ríkissjónvarpsins um sýningar á Hjálpfúsi í Stundinni okkar heldur áfram í vetur. Í síðustu viku voru teknir upp átta þættir sem sýndir verða á næstu mánuðum.

Handritshöfundarnir eru fjórir en auk þeirra Þorgeirs Tryggvasonar og Sveinbjörns Ragnarssonar sem unnu handritin að fyrri þáttum bættust við þeir Ármann Guðmundsson og Sævar Sigurgeirsson. Eins og áður eru systkinin Anna og Ragnar leikin af þeim Bjögvini Franz Gíslasyni og Arnbjörgu Valsdóttur og Helga Arnalds er í hlutverki brúðunnar Hjálpfúss.

Það var líf og fjör í stúdíóinu meðan verið var að taka upp nýja þætti með Hjálpfúsi. Anna og Ragnar hafa ekkert breyst frá því í fyrra, eru með alls konar uppátæki og rífast oft.  Þá kemur Hjálpfús til skjalanna með góðar ábendingar og leysir málin.

Þættirnir um Hjálpfús sem sýndir voru síðasta vetur eru á vefsíðunni. Hægt er að horfa á þá með því að smella hér.

Fræðsluefnið Hjálpfús heimsækir leikskólann var gefið í alla leikskóla landsins á árinu 2004. Námsefnið inniheldur fingurbrúðu og kennsluefni.

Grundvallarmarkmið Rauða krossins um mannúð án manngreinarálits er undirstaða alls kennsluefnis félagsins fyrir leikskóla og öll aldursstig grunnskólans. Nánari upplýsingar er að finna á skólavef, www.redcross.is/skoli