Laus pláss á sumarmóti URKÍ

7. apr. 2008

Um helgina var haldið undirbúningsnámskeið fyrir þá sjálfboðaliða sem hyggjast verða leiðbeinendur á sumarmóti URKÍ í ágúst á þessu ári. Paola Cardenas verkefnisstjóri á landsskrifstofu Rauða krossins fór yfir þá verkferla sem ber að vinna eftir ef barnaverndarmál af einhverju tagi koma upp. Að erindinu loknu unnu leiðbeinendurnir í þeim dagskrárliðum sem enn á eftir að leggja lokahönd á. Þeir skiptu jafnframt með sér verkefnum og ábyrgð.

Á sumarmótinu verður unnið með námsefnið Viðhorf og virðing en það gengur út á að ná fram umræðu um ýmis mál tengd fordómum, menningarmun og sjónarhornum á samfélagið.

Sumarmót URKÍ verður haldið dagana 13.-17. ágúst næstkomandi að Löngumýri í Skagafirði. Mótið er opið öllum unglingum á aldrinum 13-16 ára. Skráning og frekari upplýsingar er undir liðnum ,,á döfinni” hér á vefsíðu Rauða kross Íslands.