Sjálfboðaliðar URKí lögðu fram 930 vinnustundir á síðasta ári

23. apr. 2008

Landsfundur Ungmennahreyfingar Rauða krossins var haldinn á landsskrifstofu um helgina að viðstöddum tveimur tugum sjálfboðaliða. Í máli Jóns Þorsteins Sigurðssonar formanns URKÍ hefur stjórn og nefndir URKÍ lagt fram um 930 vinnustundir eða tæplega 40 vinnudaga á árinu 2007. Helst ber þar að nefna störf verkefnanefndar sem skipulagði og hélt utan um landsmót URKÍ á Kjalarnesi. Þá hefur hin nýstofnaða alþjóðanefnd styrkt samstarf URKÍ við ungmennahreyfingar Rauða krossins í Evrópu svo sem með þátttöku í samstarfsvettvangi ungmennahreyfinga.

Á fundinum voru drög að markmiðum og stefnu URKÍ til 2010 kynnt og rædd í hópum.

Stjórn URKÍ tók talsverðum breytingum á fundinum. Kristjana Þrastardóttir, Gunnlaugur Bragi Björnsson og Hannes Arnórsson gáfu ekki kost á sér til endurkjörs og við starfi þeirra tóku Arna Dalrós Guðjónsdóttir frá Ísafjarðardeild, Svava Traustadóttir frá Bolungarvíkurdeild og Ágústa Ósk Aronsdóttir frá Kjósarsýsludeild. Varamenn voru kosnir Sædís Mjöll Þorsteinsdóttir og Margrét Inga Guðmundsdóttir frá Héraðs- og Borgarfjarðardeild.

Hafi fólk áhuga á að kynna sér starf Ungmennahreyfingarinnar eða taka þátt í nefndum hennar er það hvatt til að hafa samband við formann (urki@redcross.is).