Sjálfboðaliðar URKÍ-R í Gambíu

11. júl. 2008

Sjálfboðaliðarnir Sigurbjörg Birgisdóttir og Egill Þór Níelsson fóru í byrjun júlí sem fulltrúar Ungmennahreyfingar Reykjavíkurdeildar til Gambíu. Munu þau dvelja þar næstu sex vikurnar og starfa með gambíska Rauða krossinum. Reykjavíkurdeildin er í vinadeildasamstarfi við tvær deildir í Gambíu, KM og Banjul deildirnar sem tóku á móti íslensku sjálfboðaliðunum.

Verkefnin sem bíða íslensku sjálfboðaliðanna eru fjölmörg. Þau munu meðal annars heimsækja flóttamannabúðir sem eru við landamæri Gambíu og Senigal, taka þátt í árlegum sumarbúðum barna og skólakynningum sem eru sívinsælar bæði hér heima og í Gambíu. 

Í fréttabréfi frá Agli kemur í ljós að líf sjálfboðaliðanna tveggja er nokkuð ólík og hefur menningin sitthvað með það að gera. Egill segir svo frá: ,,Við [Sigurbjörg] höfum hingað til mjög ólíka reynslu af Gambíu, enda er þetta ,,karlaveldi", hér elda konurnar og þrífa og ég veit sjaldnast hvaðan maturinn (sem er í 95 prósent tilvika góður og að mestu laus við lauk) sem ég fæ kemur nákvæmlega. Eins fæ ég mun meira frelsi til að gera hlutina sjálfur".

Sigurbjörg tekur í sama streng og í fréttabréfi frá henni segir hún: ,,Ég ræddi við fylgdarkonu mína á mjög svo kurteisan hátt um að ég þyrfti smá frelsi til að fara mínar eigin leiðir. Hún tók mjög vel í það- en svo kom það upp að hún skildi mig eina eftir á ströndinni meðan hún fór með einhverjum vinum sínum, það var þó ekkert frelsi fyrir mig því að þarna sat ég ein með allt draslið okkar og gat mig hvergi hreyft, hún reyndi þó og það verð ég að meta. Ég endaði á að ræða við einhvern mann um kasjú hneturækt í Gínea Bissau, eins og ég viti eitthvað um það :)"

Sigurbjörg og Egill hafa starfað með Reykjavíkurdeild Rauða krossins síðastliðið ár, Egill við heimanámsaðstoð fyrir börn af erlendum uppruna og Sigurbjörg vann í hópi þar sem áhersla var lögð á að aðstoða ungt flóttafólk að aðlagast að íslensku samfélagi.

Allir áhugsamir um vinadeildasamstarf Reykjavíkurdeildar, KM deildar og Banjul deildar er bent á að hafa samband við Marín forstöðumann URKÍ-R í gegnum netfangið urkir@redcross.is eða í síma 545 0407 á skrifstofutíma.