Ungmennastarf Rauða krossins á Stöðvarfirði

12. okt. 2007

Í Grunnskólanum á Stöðvarfirði er mannréttindafræðsla valgrein fyrir 9. og 10. bekk. Stuðst er við bókina Mannréttindi eftir Ágúst Þór Árnason sem gefin er út af Rauða krossinum. Leiðbeinandi er Björgvin Valur Guðmundsson en hann sér um vetrarstarf ungmenna Rauða krossins á staðnum.

Fjögur ungmenni fóru á landsmótið hjá URKI sem haldið var í Klébergsskóla á Kjalarnesi um síðustu helgi. Er þetta í fyrsta skipti sem ungmenni frá Stöðvarfirði fara á mót hjá URKI.

Á landsmótinu fræddust ungmennin um flóttafólk og hittu þar fólk víðsvegar að úr heiminum sem sagði þeim sögu sína. Að sjálfsögðu voru hefðbundin ærsl og leikir ekki langt undan heldur. Mótið stóð frá föstudegi til sunnudags og voru krakkarnir hæstánægðir með förina.

Í kjölfar ferðarinnar hefur Stöðvarfjarðardeild hug á því að setja upp leikinn „Á flótta" í samvinnu við aðrar Rauða kross deildir á svæðinu.