Hlutverkaleikurinn Á flótta er 10 ára

13. okt. 2008

Hlutverkaleikurinn Á flótta varð 10 ára á haustdögum, sjálfboðaliðar sem komið hafa að verkefninu síðastliðin ár komu saman í gær og héldu upp á afmælið.

Sjálfboðaliðar Ungmennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands sem hafa unnið að hlutverkaleiknum Á flótta gerðu sér glaðan dag og héldu upp á afmæli verkefnisins með pomp og prakt. Veislugestir klæddu sig upp í þau fjölmörg hlutverk sem koma fyrir í leiknum og rifjuðu upp góðar stundir saman.

Af tilefni afmælisins var einnig búið til myndband sem var frumsýnt í afmælisveislunni og sjá má hér.

Á flótta er hlutverkaleikur, þar sem ungt fólk setur sig í spor flóttamanna. Leikurinn tekur einn sólarhring og á þeim tíma fá þátttakendur að upplifa hvernig það er að vera flóttamaður. Þeir upplifa dæmigerðar aðstæður fyrir leið flóttamanns frá stríði, spillingu og hungri til ókunnugs lands, á leiðinni hrekjast þeir frá einum stað til annars.

Í leiknum eru flóttamannabúðir, skriffinnska, smygl á fólki o.s.frv. Allt miðar að því að upplifunin verði eins raunveruleg og hægt er. Leikurinn fer fram á ýmsum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Tilgangurinn með leiknum er að þau öðlist aukinn skilning á hlutskipti flóttamanna. Leikurinn er erfiður og ekki allir sem ná  að ljúka honum, en hann er jafnframt mjög skemmtilegur og öruggt að þátttakendur upplifa nokkuð sem þeir munu seint gleyma. Áhugasamir um leikinn geta nálgast frekari upplýsingar um hann hjá Ungmennadeild Reykjavíkurdeildar Rauða korssins í gegnum netfangið urkir@redcross.is eða í síma 545-0407.