Enter- og Eldhugastarfi haustsins lýkur hjá Kópavogsdeild

15. des. 2011

Krakkarnir í Enter, starfi fyrir unga innflytjendur í Kópavogi, og Eldhugar, starfi Kópavogsdeildar fyrir unglinga af íslenskum og erlendum uppruna, ljúka samverum sínum í þessari viku.

Börnin í Enter hafa unnið að ýmsum verkefnum í haust ásamt reglulegri samfélagsfræðslu og málörvun. Auk þess hafa þau farið í vettvangsferðir þar sem þau fengu að kynnast ýmis konar menningu, íþróttum, starfsemi og afþreyingu í þeirra nærsamfélagi. Þátttakendur hafa verið af fjölbreyttum uppruna eða frá Víetnam, Papúa Nýju-Gíneu, Póllandi, Portúgal, Litháen og Rússlandi.

Síðasta samvera Eldhuga er í þessari viku en starf þeirra í haust hefur einkennst að fræðslu- og kynningarstarfi. Eldhugar undirbjuggu kynningu sem þeir hafa farið með inn í félagsmiðstöðvar í Kópavogi en þær eru alls átta talsins. Eldhugar hafa nú þegar haldið kynningar fyrir um það bil 80 unglinga úr Kópavogi sem hafa mætt til að heyra hvað hópurinn hefur fram að færa. Kynningin samanstendur af fræðslu um Rauða krossinn, markmið hans, uppruna og starfsemi bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Þá er farið í skemmtilega leiki með það að markmiði að vekja jafningja til umhugsunar um fordóma og fjölbreytt samfélag. Í lok hverrar kynningar dreifa Eldhugar tímariti sem þeir gáfu út sem býr yfir ýmsu efni sem ætlað er að vekja fólk til umhugsunar um fordóma. Eldhugar tóku einnig þátt í jólabasar Kópavogsdeildar þar sem þeir fengu að  kynnast sjálfboðastarfi með ýmsum hætti. Í gegnum allt þeirra starf eru hugtökin vinátta, virðing og umburðarlyndi einnig ávallt höfð að leiðarljósi.

Kópavogsdeild þakkar öllum þeim sjálfboðaliðum og leiðbeinendum sem tóku þátt í Enter- og Eldhugastarfinu í vetur, auk þeirra sem gáfu vinnu sína með öðrum hætti en þeirra framlag skiptir sköpum við að gera starfið mögulegt.