Vilja gefa til baka!

viðtal við Örnu Bergrúnu Garðarsdóttur sem birtist í Fjarðarpóstinum 30. október

3. nóv. 2008

Ungmennahreyfing Rauða krossins hefur um árabil boðið uppá unglingastarf fyrir 13 ára og eldri. Margir ungir og öflugir sjálfboðaliðar hafa tekið þátt í starfinu og nú þegar þau eldast sjálf vilja þau víkka út starfið og bjóða því uppá barnastarf fyrir 10 til 12 ára börn alla miðvikudaga frá 16:30-18:00 í Rauðakrosshúsinu Strandgötu 24. Einn af þessum ungu sjálfboðaliðum er Arna Bergrún Garðardsóttir en hún hefur starfað sem sjálfboðaliði í tæp þrjú ár. Fjarðarpósturinn tók Örnu tali og spurði hana útí barnastarfið.

Vildum gefa til baka
„Við erum nokkrir ungir sjálfboðaliðar sem höfum verið í leiðtogaþjálfun hjá Rauða krossinum og okkur fannst kominn tími á að víkka út ungmennastarfið okkar. Við höfum lengi verið með starf fyrir þá sem eru í unglingadeildum og á framhaldsskólaaldri en það vantaði eitthvað fyrir aðeins yngri krakka. Litlu systkyni okkar höfðu líka suðað í okkur um að fá að vera í Rauða krossinum eins og við svo við tókum bara áskoruninni.“

Áhersla á leiki, glens og gaman
„Við ætlum að hafa starfið á léttu nótunum. Leikir og slíkt í bland við fræðslu um Rauða krossinn. Það hefur líka alltaf verið lögð áhersla á það í ungmennastarfi Rauða krossins að þeir sem taka þátt fá að hafa eitthvað að segja um verkefnin. Krakkarnir fá því líka að móta sitt starf alveg eins og við höfum fengið að gera í okkar starfi.“

Gleðja fólk um hátíðirnar
„Eitt af verkefnunum okkar núna í haust verður að útbúa jólakort fyrir íbúa Sólvangs og sjúklinga á St. Jósefsspítala. Þá eru það ekki bara litlu krakkarnir sem taka þátt heldur allir. Við sendum þessi kort um hver jól með vinakveðju. Það er svaka gaman að fara með kortin, hitta gamla fólkið og láta gott af sér leiða.“

Allir geta tekið þátt
„Það geta allir verið með í starfinu okkar. Það kostar ekki neitt að vera með. Það eina sem maður þarf er að vilja vera með og mæta á miðvikudögum. Krakkar í unglingadeildum geta svo mætt á fimmtudögum kl. 17:30 og menntaskólakrakkar geta haft samband við okkur vilji þau slást í hópinn“ segir Arna að lokum. Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér starfið nánar bendum við á vefsíðuna www.raudikrossinn.is/hafnarfjordur