Langar þig með Rauða krossinum til Palestínu?

6. jan. 2009

Ungmennahreyfing Rauða kross Íslands leitar að tveimur áhugasömum, sjálfstæðum og opnum einstaklingum, strák og stelpu, á aldrinum 18-25 ára, sem hafa áhuga á því að fara ásamt hópi evrópskra ungmenna til Palestínu og fræðast um líf barna og ungmenna þar í landi.  Um er að ræða verkefni í samstarfi við aðrar ungmennahreyfingar Rauða krossins í Evrópu með það að markmiði að efla menningarleg samskipti og vekja athygli almennings á aðstæðum í Palestínu.

Hópurinn mun fara til Palestínu 28. febrúar 2009 og dvelja í eina viku á Vesturbakkanum. Kvikmyndatökulið mun fylgja hópnum, en til stendur að taka upp sjónvarpsþátt um ferðina.

Með í för verða starfsmenn Rauða krossins Gerð er krafa um það að þátttakendur virði grundvallarmarkmið Rauða krossins auk þess sem nauðsynlegt er að fylgja öryggisstöðlum Rauða krossins á meðan för stendur. Öryggi þátttakenda verður haft í fyrirrúmi og ef þurfa þykir verða gerðar breytingar á tímasetningum þegar nær dregur brottför.

Viðkomandi þurfa að geta unnið sjálfstætt og hafa gaman af mannlegum samskiptum. Góð enskukunnátta er skilyrði en kunnátta í öðrum tungumálum er kostur. Umsækjendur skuldbinda sig til að sinna kynningarstarfsemi í tengslum við verkefnið og kynna verkefnið bæði á meðan ferðinni stendur og þegar heim er komið, til að mynda með notkun vefmiðla (t.d. blog í texta og mynd) og á kynningarfundum. Stefnt er að nokkuð öflugu kynningarstarfi í kjölfar ferðarinnar svo sem með heimsóknum í menntaskóla og háskóla, til að efla vitund og umræðu meðal ungs fólks.

Reynsla af starfi innan Rauða krossins er kostur en ekki skilyrði, en nauðsynlegt er að umsækjendur hafi áhuga á að taka frekari þátt í starfi Rauða krossins.

Nánar um val á þátttakendum.

Áhugasamir fylli út umsóknareyðublað og sendi umsókn í tölvupósti á [email protected], merkt „Palestínuverkefni“.

Hægt er að senda fyrirspurnir vegna verkefnisins til Davíð Lynch á [email protected].
Umsóknarfrestur er til 18. janúar 2009.

Ungmennahreyfing Rauða kross Íslands er deild innan Rauða kross Íslands, sem er sjálfboðaliða¬hreyfing 19 þúsund félagsmanna og 1500 virkra sjálfboðaliða sem starfa í 50 deildum um allt land.

Rauði kross Íslands bregst við neyð jafnt innanlands sem utan og veitir aðstoð er gerir fólk hæfara til að takast á við erfiðleika og bregðast við áföllum. Félagið stendur vörð um mannréttindi og virðingu einstaklinga.

Ungmennahreyfing Rauða kross Íslands skapar m.a. ungu fólki vettvang til að sinna Rauða kross starfi og auka þannig þátttöku og áhrif ungs fólks í félaginu, auk þess sem unnið er að þeim mannúðar- og mannréttindamálum sem snerta sérstaklega ungt fólk.

Nánari upplýsingar um starfið má finna á  hér