Ungt fólk með í ráðum

Jón Þorstein Sigurðsson formann Ungmennahreyfingar Rauða krossins

22. jan. 2009

Í því þjóðfélagsumróti sem nú gengur yfir eftir fall bankanna er í sífellu rætt um framtíðina og þá óvissuna sem í henni býr. Hæst ber umræðuna um atvinnu og efnahagslegt öryggi ásamt tryggri afkomu heimilanna. Í umræðunni hefur verið sett fram skýr krafa af hálfu ungliðahreyfinga landsins að tryggja þurfi við endurreisnina að æska landsins erfi ekki brunarústirnar og skuldir glæfralegrar efnishyggju; að tryggt verði sanngjarnt þjóðfélag með gegnsæu eftirlitskerfi. Þessar kröfur eru settar fram af ungu fólki sem nú vill starfa að uppbyggingu landsins og finnst mikilvægt að tryggja komandi kynslóðum farsæla framtíð.

Undirritaður sótti áhugavert málþing sem haldið var á vegum Æskulýðsvettvangsins (samtök BÍS, UMFÍ og KFUM/K) í samstarfi við æskulýðsráð og menntamálaráðuneytið, þar sem málefni æskunnar voru til umræðu. Þar voru mörg áhugaverð mál rædd er snúa að æsku landsins og lýsingar á því með hvaða hætti efnahagsþrengingarnar myndu leggjast á yngri þjóðfélagshópana. Lítið hefur hins vegar heyrst frá unga fólkinu og því ekki vitað hvaða lausnir það vill sjá á þeim málum sem voru til umræðu á málþinginu. Úr þessu þarf að bæta því krafan er að ekki skuli fjallað um byrðar unga fólksins án þátttöku þess.

Árið 2003 lýsti barnaréttarnefndin, sem vann skýrslu um framkvæmd Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, áhyggjum sínum af því að æsku landsins kynni að skorta næg tækifæri til að móta þau stefnumál sem varða ungt fólk beint og að sá hópur væri ekki nægjanlega vel upplýstur um hvernig láta mætti skoðanir sínar í ljós með árangursríkum hætti sem og að upplýsa um hvernig framlag þeirra kynni að verða tekið til greina. Í sama plaggi hvetur nefndin stjórnvöld til að auka stuðning sinn við æskuna þannig hún geti tekið þátt í að móta ákvarðanir þeirra.

Árið 1985 stofnaði Rauði krossinn Ungmennahreyfingu Rauða kross Íslands þar sem ungt fólk 30 ára og yngra eignaðist vettvang til að hafa áhrif á og vinna að verkefnum félagsins. Verkefni innan Ungmennahreyfingar Rauða krossins hafa síðan þá vaxið og dafnað og nærtækt dæmi um hugmyndir unga fólksins er Hjálparsíminn 1717. Fyrir tilstuðlan ungs fólks var árið 1992 sett á laggirnar Vinalínan sem annaði brýnni þörf um stuðning til ungmenna undir nafnleynd. Vinalínan var svo sameinuð trúnaðarsímanum undir merkjum Hjálparsímans 1717 sem í dag er ávallt opin þeim sem leita aðstoðar. Símtöl í hann voru rúmlega 21 þúsund á síðastliðnu ári.

Í dag er Ungmennahreyfing Rauða krossins opinn vettvangur fyrir ungt fólk til að hafa áhrif á gang þeirra verkefna sem Rauði krossinn vinnur að. Umfram allt er Ungmennahreyfing Rauða krossins vettvangur ungs fólks til að hafa áhrif. Það að hafa unga fólkið innanborðs er mikill styrkur þeim skoðunum og hugmyndum sem þurfa að koma fram hverju sinni.

Því er mikilvægt fyrir ráðamenn og aðra að horfa til þess að hafa æsku landsins með í ráðum þegar uppbygging eftir umrótið fer fram. Nýjar hugmyndir og sterkar skoðanir á málefnum eru partur af því byggingarefni sem þarf að viða að sér þegar byggja á upp. Þegar allar raddir samfélagsins fá að heyrast, bæði þeirra sem reynsluna hafa, sem og þeirra sem vilja koma að uppbyggingunni með nýjar áherslur, er hægt að fara að leggja grunninn sem húsið á að standa á. Ef hins vegar vantar stoðir í grunninn mun myndin alltaf hanga skökk á veggnum og húsið standa veikt um ókomna tíð.

Nýtum því tækifærið eftir umrótið og byrjum að leita fanga eftir nýju byggingarefni, hvort svo sem er innan deilda Rauða krossins og félagasamtaka eða hjá ríkisvaldinu. Fáum þeim verkfærin í hönd til að byrja mótunarstarfið og hættum að taka ákvarðanir fyrir æsku landsins en byrjum þess í stað að taka ákvarðanir með henni. Opnum fyrir nýjar hugmyndir og nýjar áherslur þannig að allir geti komið að því að tryggja hag okkar um ókomna framtíð.