Nemendur Grundaskóla á Akranesi hjálpa börnum í Malaví

4. jan. 2012

Tíundu jólin í röð stóðu nemendur Grundaskóla á Akranesi fyrir jólasöfnun fyrir bágstadda en síðustu árin hefur söfnunarféð runnið til hjálparstarfs Rauða krossins í Malaví. Um eitt þúsund tveggja til fimm ára börn sem þjást vegna munaðarleysis, fátæktar eða alnæmis í Malaví njóta góðs af þessu frábæra framtaki nemenda Grundaskóla.

Nú er áratugur síðan sex til sextán ára nemendur í Grundaskóla á Akranesi tóku upp þennan fallega jólasið í stað þess gamla sem kallaðist Pakkajól. Hann fólst í því að allir komu með lítinn pakka í skólann og settu undir jólatréð og síðan fékk hver nemandi einn pakka. Yfirleitt var innihaldið sælgæti, lítil stytta eða annað dót sem oft vakti enga sérstaka lukku og endaði inni í geymslu engum til gagns. Kom þá nemendaráð skólans með tillögu um að taka upp nýjan sið með meiri tilgang.

Nýi jólasiðurinn fólst í því að baukur var settur í hvern bekk á aðventu og söfnuðu krakkarnir smáaurum í hann til jóla. Á litlu jólunum í skólanum afhenda þau svo söfnunarféð Rauða krossinum til að hjálpa bágstöddum börnum í Malaví.

Að sögn Sigurðar Arnar Sigurðssonar, aðstoðarskólastjóra, safnast á bilinu 200.000-400.000 krónur um hver jól og því lætur nærri að nemendur skólans hafi safnað samtals þremur milljónum króna á þessum tíu árum.

Söfnunarféð rennur til rekstrar á sjö athvörfum fyrir börn í héruðunum Chiradzulu og Mwanza í Malaví, en í hverju þeirra eru um 150 börn. Þar fá börnin að þroskast í öruggu og örvandi umhverfi, aðgang að heilbrigðisþjónustu og undirbúning fyrir skólagöngu. Við hvert athvarf er einnig matjurtagarður þar sem ræktaður er maís og grænmeti til að tryggja börnunum fjölbreytt og heilbrigt fæði. Athvörfin eru rekin af foreldrum og sjálfboðaliðum Rauða krossins.

Rauði krossinn þakkar nemendum Grundaskóla fyrir frábært framtak og staðfastan stuðning til góðra verka og hvetur aðra skóla til að fylgja fordæmi þeirra. Árleg jólasöfnun nemenda skólans er gott dæmi um hvernig margt smátt gerir eitt stórt og hjálpar þeim sem minnst mega sín.

Sveinn Kristinsson, formaður Akranesdeildar Rauða krossins, veitti söfnunarfénu viðtöku í Grundaskóla.