Framadagar 2009

23. feb. 2009

Framadagar voru haldnir föstudaginn 20. febrúar í húsakynnum Háskólabíós í fimmtánda skipti. Var Ungmennadeild Rauða krossins á staðnum til að kynna verkefni sín og Rauða krossinn almennt  fyrir gestum og gangandi.

Á Framadögum koma fyrirtæki og félagasamtök frá höfuðborgarsvæðinu saman til að kynna starfsemi sína fyrir dugandi menntafólki. Tilgangurinn er einnig að skapa sér jákvæða ímynd í huga háskólanema. Síðan 1995 hafa Framadagar skilað ómetanlegum tengslum á milli fyrirtækja, starfsmanna og menntafólks. Nemendur hafa m.a. komist í framtíðarstarf sitt í framhaldi af Framadögum og unnið lokaverkefni í samstarfi við fyrirtæki.

Rauði krossinn hefur tekið þátt í framadögum og var árið í ár engin undantekning. Líkt og í fyrra, stóðu sjálfboðaliðar URKÍ-R vaktina og kynntu sjálfboðið starf fyrir gestum Framadaga. Fjöldi fólks lagði leið sína í Háskólabíó á föstudaginn og fræddist um spennandi verkefni, ásamt því að gæða sér á sælgæti, gosi og vöfflum með rjóma sem fyrirtækin og félagasamtökin buðu upp á.

 
Upplýsingar um verkefni URKÍ-R er hægt að nálgast hjá forstöðukonu Ungmennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins í síma 545-0407 eða á netfangið [email protected]