Heilahristingur og Vinanet – verkefni Rauða krossins fyrir ungmenni í Reykjavík

2. mar. 2009

Heilahristingur, nýtt samstarfsverkefni Reykjavíkurdeildar Rauða krossins, Alþjóðahúss í Breiðholti og Borgarbóksafns, hófst þann 10. febrúar. Heilahristingur er heimanámsaðstoð fyrir börn af erlendum uppruna í 8. til 10. bekk Fella- og Hólabrekkuskóla. Einnig er fyrirhugað að setja á laggirnar heimanámsaðstoð fyrir yngri bekki Hólabrekkuskóla á næstu mánuðum. Verkefnið er starfrækt í Gerðubergssafni Borgarbókasafns.

Tilgangur verkefnisins er að bregðast við ótímabæru brottfalli grunnskólabarna af erlendum uppruna og auka líkur á að þau kjósi að fara í framhaldsskóla. Megináherslan er skapandi unglingastarf sem miðar að því að opna augu ungmennanna fyrir möguleikum sem fyrir hendi eru hvað varðar framtíð þeirra og styrkja sjálfsmynd þeirra.

Verkefnið hefur hlotið styrk úr Þróunarsjóði innflytjendamála og nýtur einnig faglegs stuðnings frá Etadeild Delta Kappa Gamma ásamt því að félagar deildarinnar sinna sjálfboðnu starfi í verkefninu. Allir þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu og gerast sjálfboðaliðar eru beðnir að hafa samband við Reykjavíkurdeild Rauða krossins í síma 545 0400 eða senda tölvupóst á netfangið sjalfbodamidlun@redcross.is

Einangrun ungmenna rofin
Vinanet er nýtt samstarfsverkefni Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og Ungmennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins. Vinanet er hugsað sem spjall fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára sem hefur einangrast frá samfélaginu.

Ætlunin er að ná til þessa hóps með aðstoð Internetsins en það er sá vettvangur þar sem auðvelt er að ná til sem flestra. Á Vinaneti getur fólk rætt saman á uppbyggilegan hátt um hin ýmsu málefni. Einu sinni í mánuði er svo ráðgert að þeir sem eru saman á spjallinu hittist utan tölvuheima ásamt sjálfboðaliðum og geri eitthvað skemmtilegt saman.

Hlutverk sjálfboðaliða er að halda utan um spjallið og sjá til þess að notendur spjalli saman á jákvæðum nótum ásamt því að ýta undir að allir taki virkan þátt – bæði í spjallinu og í mánaðarlegum hittingum utan netheima. Sjálfboðaliðar verkefnisins hafa setið grunnnámskeið Vinanets og fengið þjálfun í viðtalstækni.

Vinanetið hefur farið fram úr öllum vonum fyrstu vikurnar, og eru skráðir notendur orðnir vel yfir 70 talsins. Fólk hefur verið að ræða allt milli himins og jarðar og hafa skapast mjög skemmtilegar og oft á tíðum fræðandi umræður. Spjallið er unnið að fyrirmynd Rauða krossins í Danmörku sem heldur úti verkefni sem kallast Ensom Ung en þar hefur svona spjall verið starfrækt síðan 2001 og telur nú yfir 150.000 skráða notendur.

Vinanet er opið alla sunnudaga og þriðjudaga milli kl. 18:00-21:00 á slóðinni vinanet.is. Ungt fólk á aldrinum 16-25 er hvatt til þess að skoða síðuna, skrá sig og taka þátt í spjallinu.

Þeir sem hafa áhuga á að vinna sjálfboðna vinnu við verkefnið sækja um hjá Garðari Erni Þórssyni, verkefnisstjóra Vinanets (gardar@redcross.is) Fjólu Einarsdóttur verkefnisstjóra Hjálparsíma Rauða krossins 1717 (fjola@redcross.is) eða Berglindi Rós Karlsdóttur, forstöðukonu ungmennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins (berglind@redcross.is) eða hringja í Reykjavíkurdeildina í síma 545 0400.