Ungmenni kynna sér starfsemi Rauða krossins

18. mar. 2009

Nú stendur yfir árleg þemavika í Lindaskóla í Kópavogi og þemað í unglingadeildinni í ár er Rauði kross Íslands. Nemendur úr skólanum hafa kynnt sér starfsemi Rauða krossins og hafa nokkrir hópar komið í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og tekið viðtöl við starfsmenn deildarinnar. Þeir hafa fræðst um rekstur deildarinnar, verkefnin, námskeið og ungmennastarfið. Þá hafa nokkrir hópar líka farið á landsskrifstofu Rauða krossins og fengið upplýsingar um starfið þar. Þeir fengu meðal annars stutta kennslu í skyndihjálp.

Samkvæmt upplýsingum frá Lindaskóla taka margir þátt í hjálparstarfi þessa vikuna en í gangi er skiptimarkaður og fatasöfnun fyrir Rauða krossinn og hefur nú þegar safnast töluverður fatnaður. Þá eru nemendurnir byrjaðir að setja upp flóttamannabúðir en von er á fleiri nemendum í sjálfboðamiðstöðina til að kynna sér Rauða krossinn. Í tilefni af þemavikunni hafa nemendurnir í unglingadeildinni opnað fréttasíðu þar sem hægt er að fylgjast með fréttum af þemaviku. Slóðin er http://themavika.blog.is.

Nemendur Lindaskóla læra að hjartahnoða.