Samnorrænn fundur Ungmennahreyfinga Rauða krossins

8. apr. 2009

Samnorrænn fundur Ungmennahreyfinga Rauða krossins var haldinn hér á landi í lok mars. Um sjötíu þátttakendur sóttu fundinn en hann var haldinn í húsnæði Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins. Meginumræðuefnið var málsvarastarf og var það rætt út frá ýmsum sjónarhornum.

Að sögn Jóns Þorsteins Sigurðssonar, formanns URKÍ, tókst fundurinn mjög vel og bindur hann miklar vonir við það að næsta árið muni samskipti stjórna Ungmennahreyfinganna á Norðurlöndum eflast til mikilla muna sem skila sér svo áfram í þróun verkefna tengdum ungu fólki.

Anna Stefánsdóttir formaður Rauða krossins ávarpaði fundinn og í máli hennar kom meðal annars fram að afrakstur funda af þessu tagi geti verið mikilvægt innlegg í umræðuna um stefnumótun hreyfingarinnar, svokallaða Stefnu 2020, sem er í fullum gangi um þessar mundir.