Vorferð barna og ungmenna í Heiðmörk

26. maí 2009

Á uppstigningardag héldu börn og ungmenni sem tekið hafa þátt í Rauða kross starfi deildanna á höfuðborgarsvæðinu í sína árlegu vorferð. Í þessari dagsferð gefst ungmennunum einstakt tækifæri til að hittast og kynnast krökkum í öðrum deildum sem starfa með Rauða krossinum. Ferðin var afar vel sótt en rúmlega 70 börn og ungmenni auk sjálfboðaliða tóku þátt í ár.

Alls komu 28 börn og ungmenni frá Kópavogsdeild að þessu sinni. Úr Enter starfinu, sem er vikulegt starf  með sjálfboðaliðum fyrir 9-12 ára innflytjendur, komu 18 börn. Eldhugarnir voru 10 talsins en þeir eru unglingar á aldrinum 13-16 ára sem einnig hafa hist einu sinni í viku í vetur. Hópurinn var í heild sinni mjög alþjóðlegur en krakkarnir frá Kópavogsdeild komu meðal annars frá Póllandi, Litháen, Tælandi, Dóminíska lýðveldinu, Rúmeníu og Íslandi.

Ungmennin í ættbálkaleiknum.
Eftir að hafa sótt krakka á höfuðborgarsvæðinu var ferðinni heitið upp í Heiðmörk þar sem borðað var nesti, farið í hópeflisleiki og síðan í svokallaðan ættbálkaleik. Leikurinn fór þannig fram að hópnum var skipt upp í lið sem kepptu síðan sín á milli í hinum ýmsu þrautum. Má þar nefna pokahlaup, húlahopp og snúningsboðhlaup. Myndaðist mikil og góð stemning í leiknum og í kjölfarið kom hópurinn sér vel fyrir í Heiðmörkinni þar sem grillaðir voru hamborgarar. Veðrið lék við hópinn og óhætt að segja að ferðin hafi verið vel heppnuð.

Þessi ferð var lokahnykkur í ungmennastarfi deildanna fyrir sumarið sem hefst að nýju í haust. Þeir sem hafa áhuga á að gerast sjálfboðaliðar eru hvattir til að hafa samband í síma 554 6626 eða á kopavogur@redcross.is.