Ungir sjálfboðaliðar vöktu athygli á Genfarsamningunum á 60 ára afmælinu

12. ágú. 2009

Ungir sjálfboðaliðar Rauða krossins vöktu athygli vegfarenda í miðbænum á því að í dag eru 60 ár liðin frá undirritun Genfarsamninganna sem veita mönnum vernd í vopnuðum átökum. Börnin báru skilti með þeim reglum sem ber að virða í stríðsátökum og stöðvuðu gesti og gangandi til að fræða þá um samningana sem bjargað hafa ótöldum mannslífum. Börnin sækja þessa dagana námskeiðið Mannúð og menning í boði Garðabæjardeildar Rauða krossins.

Rauði krossinn reisti einnig fangaklefa á Lækjartorgi að eftirmynd hefðbundins fangaklefa í Rúanda. Eftir þjóðarmorðin þar í landi árið 1994 dvöldust að meðaltali um 17 manns í einu í slíkum klefa sem var 6 fermetrar að stærð. Fangarnir urðu að sofa og sinna öðrum þörfum sínum innan þessara veggja, oft um margra mánaða skeið. Vegfarendum var boðið að giska á hversu margir hefðu gist fangaklefann í einu, og fara inn í klefann ásamt þeim fjölda sem að jafnaði hafðist þar við.

17 manns stilltu sér inn í fangaklefann á Lækjartorgi til að finna fyrir þeim þrengslum sem fangarnir í Rúanda þurftu að þola. Kristín Ólafsdóttir segir frá hryllilegum aðstæðum fanga þar sem hún hefur verið við störf. Anna Stefánsdóttir formaður Rauða krossins fremst á myndinni.

Anna Stefánsdóttir formaður Rauða krossins sendi einnig forsætisráherra Íslands bréf þar sem beint er þeim tilmælum til stjórnvalda að sinna útbreiðslu á alþjóðlegum mannúðarlögum, fullgilda samninga um alþjóðlegan mannúðarrétt og tryggja framkvæmd þeirra, að sjá til þess að óháð og sjálfstæð mannúðaraðstoð geti farið óhindruð þar sem átök geisa, og að refsa beri þeim sem gerist sekir um glæpi í vopnuðum átökum. Fjölmörg önnur evrópsk Rauða kross félög sendu einnig stjórnvöldum í sínu landi samskonar tilmæli.

Einnig var haldinn morgunverðarfundur með yfirskriftinni Genfarsamningarnir: úrelt plagg eða lifandi grundvöllur mannúðarlaga? þar sem Þórir Guðmundsson sviðsstjóri alþjóðasviðs hélt erindi um stöðu Genfarsamninganna nú á dögum og Kristín Ólafsdóttir sendifulltrúi sagði frá starfi sínu við fangavernd og útbreiðslu mannúðarlaga á vegum Alþjóðaráðs Rauða krossins í Eritreu og Rúanda.

Genfarsamningarnir eru hornsteinninn í alþjóðlegum mannúðarrétti. Enda þótt ógnir stríðsátaka taki stöðugum breytingum halda Genfarsamningarnir gildi sínu og eru áfram grundvöllur þess hjálparstarfs sem fram fer á vígvöllum um víða veröld. Í samningunum eru ákvæði sem veita Rauða krossinum víðtækt hlutverk við að vernda og aðstoða fórnarlömb stríðsátaka. Rauði krossinn vinnur í rúmlega 80 löndum við að fræða stríðandi fylkingar um Genfarsamningana og fylgjast með því að þeir séu virtir.