Enter- og Eldhugastarf hefst að nýju eftir sumarfrí

18. sep. 2009

Nú er barna- og ungmennastarf Kópavogsdeildarinnar komið á fullt skrið en í fyrradag var fyrsta samvera Enter hópsins og í gærkvöldi hittust Eldhugar einnig í fyrsta sinn á nýju hausti. Enter er verkefni fyrir unga innflytjendur á aldrinum 9-12 ára en Eldhugar eru fyrir 13-16 ára unglinga af íslenskum og erlendum uppruna. Bæði verkefnin miða að því að auðvelda ungum innflytjendum að aðlagast nýju samfélagi og taka virkan þátt í því en Eldhugar vinna auk þess sérstaklega með hugtökin vináttu og virðingu í gegnum skapandi verkefni.

Enter hópurinn hóf vetrarstarf sitt með því að hanna sína eigin bók sem þau munu vinna að í vetur. Þau munu færa ýmis verkefni inn í bókina sem bæði auka orðaforða þeirra og örva málþroska. Margt annað er einnig á döfinni líkt og ratleikur, fjöruferð, söngur, dans, bingó og vettvangsheimsóknir.

Eldhugar í hópefli og hugstormun.

Eldhugarnir hófu sinn fyrsta fund með allsherjar hópefli til að hrista hópinn saman enda bætast alltaf fleiri Eldhugar við á hverri önn. Það var unnið með leiklist þar sem Eldhugarnir áttu að túlka ýmis hugtök líkt og fordóma, virðingu og vináttu með leikrænni tjáningu. Hópurinn setti einnig saman drög að dagskrá en Eldhugar fá að hafa áhrif á það hvaða viðfangsefni er unnið með hverju sinni. Margar hugmyndir spruttu fram líkt og að halda hæfileikakeppni, frekari blaðaútgáfa, ljósmyndamaraþon, bolamálun, hönnunarkeppni, hipp-hopp danskennsla og fleira spennandi. Þá munu Eldhugar láta gott af sér leiða til að mynda með því að búa til handverksvörur fyrir markað deildarinnar sem haldinn verður síðar í haust.