Yoko Ono býður Rauða krossinum að safna fyrir fjölskyldur

9. okt. 2009

Listakonan og friðarsinninn Yoko Ono býður Rauða krossi Íslands að vera með fjársöfnun í tengslum við tendrun Friðarsúlunnar í Viðey og minningartónleikana um John Lennon í Hafnarhúsinu föstudaginn 9. október. 

Sjálfboðaliðar Rauða krossins munu selja pakka með friðarnælum sem hannaðar eru af Yoko Ono í Hafnarhúsinu á föstudagskvöldið og úti í Viðey föstudags-, laugardags- og sunnudagskvöld, auk þess að taka við frjálsum framlögum frá fólki. Þá verður söfnunarsími Rauða krossins 904 1500 opinn næstu daga, en 1.500 kr. dragast af næsta símreikningi þegar hringt er í hann.

Safnað verður fyrir verkefni Rauða krossins í þágu fjölskyldna sem orðið hafa fyrir áföllum vegna efnahagsþrenginga undanfarinna mánuða. Árlega veitir Rauði krossinn aðstoð til fjölskyldna um allt land fyrir jólin, og einnig geta fjölskyldur og einstaklingar sótt sér stuðning og ráðgjöf í Rauðakrosshúsið, Borgartúni 25. Starfið þar er byggt á áralangri reynslu félagsins af viðbrögðum í neyð. Starfsemin er síbreytileg þar sem leitast er við að veita þá aðstoð sem brýnust er talin hverju sinni.

Rauði kross Íslands hlaut peningastyrk LennonOno friðarviðurkenningarinnar á síðasta ári. Verðlaunafénu var varið til að gefa ungmennum í Palestínu og á Íslandi tækifæri til að hafa samskipti sín á milli og kynnast framandi aðstæðum. Tveir ungir sjálfboðaliðar í sjúkraflutningateymi Rauða hálfmánans í Palestínu komu hingað til lands í ágúst til að vinna með ungum sjálfboðaliðum Rauða kross Íslands, og stóðu þeir meðal annars vaktina á Menningarnótt ásamt skyndihjálparhópi Reykjavíkurdeildar Rauða krossins.