Fataflokkun og verslun Rauða krossins að Laugavegi 12

11. maí 2004

Verkefnið er samstarfsverkefni Rauða kross deilda á höfuðborgarsvæðinu, sem felur í sér vinnslu á fatnaði af þjónustusvæðum Sorpu, rekstur fataflokkunarstöðvar og verslunar til að afla tekna fyrir hjálparsjóð Rauða kross Íslands.

Guðjón Frímannsson sjálfboðaliði Rauða krossins
við vinnu í Fataflokkunarstöðinni.
Fatasöfnun Rauða krossins

Deildir Rauða krossins um allt land safna notuðum fatnaði sem allur nýtist til hjálparstarfs. Á höfuðborgarsvæðinu er Rauði krossinn í samstarfi við Sorpu um söfnun og flokkun fatnaðar. Fatnaður sem Rauði krossinn fær nýtist þannig:

  • hann er seldur beint til útlanda og ágóðinn rennur í Hjálparsjóð  Rauða krossins,
  • hann er flokkaður og gefinn þurfandi hér á landi,
  • hann er flokkaður og gefinn þurfandi erlendis,
  • hann er flokkaður og seldur í Rauða kross búðinni L12 að Laugavegi 12.

 

Fötum er úthlutað til þeirra sem á þurfa að halda alla miðvikudaga klukkan 9-14 í Fataflokkunarstöð Rauða krossins að Gjótuhrauni 7, Hafnafirði, sími: 587 0900

 

   

Árlega berast um 500 tonn af notuðum fötum til Rauða krossins. Það sem ekki er nýtt beint til hjálparstarfa er selt. Um er að ræða mikilvæga tekjuöflun Rauða krossins sem skilar sér beint í alþjóðlega neyðaraðstoð.Þó að allt komi að notum, líka skór og tuskur, þá er hreinn og heillegur fatnaður, sem vel er gengið frá, sérstaklega verðmætur. Á síðustu árum hefur fatnaður frá Íslandi veitt þúsundum manna í löndum eins og Rússlandi, Úsbekistan, Lesótó og Gambíu kærkomna hlýju. Vetrarföt eru send á köld svæði en léttari fatnaður til hlýrri svæða.

     

 

   Íbúar á höfuðborgarsvæðinu geta fengið upplýsingar um opnunartíma og staðsetningu endurvinnslustöðva á heimasíðu Sorpu. Vinsamlegast látið fötin í plastpoka og lokið vel fyrir. Pokarnir eru settir í vel merkta hvíta gáma sem vel er hugsað um. Sjálfboðaliðar flokka fatnaðinn í Fataflokkunarstöð Rauða krossins að Grjótahrauni 7, Hafnarfirði.  

Íbúar á landsbyggðinni geta haft samband við sína deild og spurst fyrir um söfnunarstað. 
Nánari upplýsingar veitir Linda Ósk Sigurðardóttir, svæðisfulltrúi í síma 565 2425


Rauðakrossbúðin Laugavegi 12