10. okt. 2006 : Fræðsla, glens og gaman á sumarbúðum Rauða krossins

Sumarbúðir Rauða krossins voru starfræktar áttunda sumarið í röð. Boðið var upp á þrjú tímabil, tvö á Löngumýri og eitt í Stykkishólmi. Sumarbúðarstjórar voru þeir Karl Lúðvíksson, á Löngumýri og Gunnar Svanlaugsson, í Stykkishólmi. Þátttakendur komu víða að og voru samtals 36. 

Eitt meginmarkmiðið með rekstri búðanna er að bjóða einstaklingum sem búa við einhvers konar fötlun upp á skemmtilega og fræðandi sumardvöl þar sem lífsgleði, lærdómur og ljúfmennska ráða ríkjum.

Dagskrá sumarbúðanna var með svipuðu sniði og undanfarin ár. Fastir liðir eins og venjulega  voru:  Fræðsla um Rauða krossinn og grundvallarmarkmiðin 7 í tengslum við Solferinoleikinn, fyrirlestur og verkleg kennsla í skyndihjálp, ýmsar íþróttir svo sem borðtennis, gönguferðir, fótbolti, júdó og sund, fjallganga, sjóferð, flúðasiglingar og hestamennska, morgunstund, kvöldvaka og diskótek og kynnis- og skoðunarferðir.